Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur samið við Rauða krossinn um neyðaraðstoð við þá útlendinga sem fengið hafa endanlega synjun um alþjóðlega vernd hér á landi.

Ráðuneytið hefur jafnframt gert breytingar á reglum um endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna þessa fólks. Samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu á það nú að vera skýrt hvað kemur til endurgreiðslu vegna aðstoðar sveitarfélaga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Um tímabundið verkefni er að ræða sem felur í sér að umræddir einstaklingar geti fengið gistingu og fæði í samræmi við það sem almennt tíðkast í gistiskýlum fyrir heimilislaust fólk.

Í lok ágúst síðastliðinn lýstu 28 hjálpar- og mannréttindasamtök yfir þungum áhyggjum af þeirri alvarlegu stöðu sem þá var kominn upp í málefnum flóttafólks sem vísað hefur verið úr allri þjónustu opinberra aðila. Í yfirlýsingu hörmuðu samtökin að ekki skuli hafa verið tekið tillit til ítrekaðra varnaðarorða varðandi afleiðingar nýrra ákvæða útlendingalaga. Þá léki mikill vafi á að framkvæmdin stæðist þær mannréttindaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.

Samtökin skoruðu á yfirvöld að tryggja öryggi þessa hóps, mannréttindi og grunnaðstoð með virku samráði við hjálpar- og mannréttindasamtök.

 

Styrkja