Leita verður aftur til hrunáranna 2009 – 2010 til að finna fleiri umsækjendur um jólaaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar en fyrir jólahátíðirnar 2022 og 2023. Þegar allt er talið fengu á milli sautján og átján hundruð fjölskyldur aðstoð til að geta gert sér dagamun og glaðst um hátíðirnar 2022 og 2023.

Þegar rýnt er í gögn Hjálparstarfsins um aðstæður fólksins sem leitaði eftir aðstoð kemur í ljós að mikill meirihluti býr í leiguhúsnæði. Lang stærsti hópurinn leigði íbúð á almennum markaði. Nú sem fyrr blasir því við að húsnæðiskostnaður er megin ástæða þess að fólk nær ekki endum saman. Aftur og aftur sjá félagsráðgjafar Hjálparstarfsins dæmi þess að þegar húsaleiga hefur verið greidd stendur aðeins lítill hluti greiddra launa eftir.

Þetta er þó ekkert nýtt. Svo langt sem horft er aftur koma sömu ástæður í ljós fyrir bágri stöðu fólks. Því er fólk sífellt að glíma við sömu draugana sem er ekki síst ógnarhár húsnæðiskostnaður.

Sú regla er viðhöfð hjá Hjálparstarfinu við útdeilingu aðstoðar á aðventunni að barnafjölskyldur ganga fyrir við úthlutun. Því stendur því stór barnahópur að baki þeim umsóknum sem Hjálparstarfinu berast á aðventunni. Það er reynsla félagsráðgjafa Hjálparstarfsins að hið minnsta séu þrjú börn að meðaltali að baki hverri fjölskyldu sem fær aðstoð. Kemur það til vegna þess að allstór hluti þeirra fjölskyldna sem fá aðstoð, eða um 40%, eru af erlendum uppruna og margar barnmargar. Má hiklaust gera ráð fyrir að á milli fimm og sex þúsund manns hafi notið aðstoðar Hjálparstarfsins fyrir jólin nú og jólin 2022.

Fyrir jólin 2022 fengu 1.783 fjölskyldur aðstoð Hjálparstarfsins en 1.723 fyrir nýliðin jól. Árin þar á undan voru þær öllu færri eða um 1.400 fjölskyldur að meðaltali á árabilinu 2011 – 2021. Má í samhengi minnast þess að hrunárin 2009 og 2010 leituðu um og yfir 4.000 fjölskyldur til Hjálparstarfsins hvort ár.

 

Styrkja