Átök hafa geisað í nyrstu fylkjum Eþíópíu frá því í nóvember 2020. Að mati Sameinuðu þjóðanna hangir líf 5,5 milljóna íbúa á bláþræði vegna matarskorts. Tugþúsundir íbúa hafa flúið yfir til Súdan og átökin hafa breiðst út til fylkjanna Amhara og Afar þar sem 450 þúsund íbúar eru á hrakhólum.
Í janúar 2022 sendi Hjálparstarf kirkjunnar 21,2 milljónir króna til mannúðaraðstoðar í Afganistan. Framlagið er að meðtöldum 20 milljóna króna styrki utanríkisráðuneytisins og rennur það til verkefna Christian Aid, systurstofnunar Hjálparstarfsins í Alþjóðlegu hjálparstarf kirkna, ACT Alliance.
Eftir að hafa verið frá völdum í 20 ár komust Talibana aftur til valda í Afganistan þegar bandarískt herlið yfirgaf landið í ágúst 2021. Segja má að um leið hafi hafist hnignun og afturför í landinu ekki hvað síst hvað varðar mannréttindi og stöðu kvenna.
Afganska þjóðin stendur nú frammi fyrir mikilli neyð en samkvæmt Sameinuðu þjóðunum fá 95% af afgönsku þjóðinni ekki nóg að borða. Fyrir valdatöku talibana var efnahagsstaðan í landinu mjög slæm vegna þurrka og afleiðinga kórónuveirufaraldursins en nú fer sárafátækt hratt vaxandi og mikill skortur er á matvælum.
Alþjóðastofnanir segja mjög mikilvægt að viðhalda flæði fjármagns og mannúðaraðstoðar til Afganistan til að vernda það sem unnist hefur í þróunarstarfi undanfarna áratugi og til að koma í veg fyrir algjört hrun í landinu.
Markmið með verkefni Christian Aid eru fyrst og fremst að tryggja fólki sem býr við sárustu fátæktina aukið fæðuöryggi, húsaskjól og aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu. Áætlað er að verkefnið nái til samtals 63 þúsund einstaklinga fram til loka árs 2022.