Mannúðaraðstoð í Sýrlandi
Í júlí 2021 sendi Hjálparstarf kirkjunnar um 10.7 milljóna króna fjárframlag til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi. Átök höfðu þá geisað í landinu í rúman áratug en kórónuveirufaraldurinn enn aukið á sára neyð fólksins þar. Að mati Sameinuðu þjóðanna þurftu um ellefu milljónir íbúa á aðstoð að halda og rann fjárframlagið til verkefna Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins sem leggur áherslu á að vernda líf og heilsu íbúanna og að veita börnum jafnt sem fullorðnum sálfélagslegan stuðning.
Áhersla er lögð á að hlúa að börnum, eldra fólki og sjúklingum og að aðstoða fjölskyldur við að koma undir sig fótunum á ný.
Framlagið var að meðtöldum stuðningi utanríkisráðuneytisins sem veitti Hjálparstarfi kirkjunnar styrk að upphæð tíu milljónir króna. Frá árinu 2014 hefur Hjálparstarf kirkjunnar, með stuðningi ráðuneytisins, sent fjárframlag til mannúðaraðstoðar við stríðshrjáða Sýrlendinga sem nemur rúmlega 118 milljónum króna.
Jarðskjálftar í Tyrklandi og Sýrlandi
Aðfaranótt 6. febrúar síðastliðinn reið jarðskjálfti, sem var 7,8 að stærð, yfir landamærahéruð Tyrklands og Sýrlands. Hundruð stórra eftirskjálfta fylgdu í kjölfarið. Um hrikalegar náttúruhamfarir var að ræða á þeim landsvæðum sem liggja næst upptökum stóru skjálftana.
Ekki er lengur talað um tugþúsundir manna sem þurfa að takast á við nær ómögulegar aðstæður heldur neyð hundruð þúsunda manna eða milljóna.
Björgunarfólk og hjálparsamtök hafa frá fyrsta degi unnið hörðum höndum en verkefnið er ógnarstórt. Eyðileggingin sem blasir við beggja vegna landamæra Tyrklands og Sýrlands er í raun óhugsandi.
Þegar þetta er skrifað er tala látinna um 47.000 manns. Talsmenn Sameinuðu þjóðanna telja að tala látinna eigi eftir að verða miklum mun hærri. Hvorki tyrknesk yfirvöld né sýrlensk hafa gefið út hversu margra er saknað. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, (WHO) telur að 26 milljónir manna í löndunum tveimur eigi um sárt að binda og þurfi á neyðaraðstoð að halda.
Strax eftir að fyrsti og stærsti jarðskjálftinn reið yfir í landamærahéruðum Tyrklands og Sýrlands hófu systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar á staðnum mat á því hvernig bregðast ætti við með sem skilvirkustum hætti. Á sama tíma var hjálpargögnum dreift; mat, lyfjum, teppum og hlýjum klæðnaði. Þá strax var ljóst að þörfin fyrir neyðaraðstoð var gríðarleg. Upplýsingar frá hamfarasvæðunum staðfesta nú að þörfin er margföld miðað við þá stöðu sem viðbragðsaðilar héldu í upphafi að væri við að eiga. Þetta á ekki síst við um Sýrland.
Eftirlifendur náttúruhamfaranna í Tyrklandi og Sýrlandi hafast við á götum úti eða í neyðarskýlum. Þeir eru allslausir að kalla og háðir neyðaraðstoð. Næstu vikurnar þarf að hlúa að slösuðum, skjóta skjólshúsi yfir þá sem hafa misst heimili sín og miðla hjálpargögnum til þeirra sem hafa misst aleigu sína.
Verkefnin eru óteljandi og af margvíslegum toga. Neyðarskýli hafa verið sett upp í kirkjum, moskum, skólabyggingum eða samkomuhúsum hvers konar sem stóðu af sér skjálftana. Þar hafa þeir sem þurfa aðgang að dýnum, teppum og heitum mat en matarskortur er orðinn tilfinnanlegur. Sérstaklega þarf niðursoðinn mat og tilbúna rétti þar sem matreiðsla er víða útilokuð.
Aðeins fáeinum klukkustundum eftir að jarðskjálftarnir riðu yfir hófu systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar að veita aðstoð sína. Þá strax var ljóst að þörfin fyrir neyðaraðstoð var gríðarleg. Ljóst er að alþjóðasamfélagið þarf að veita Tyrkjum og Sýrlendingum aðstoð næstu mánuðina og jafnvel árin.
Hjálparstarf kirkjunnar hóf strax neyðarsöfnun vegna hamfaranna enda ljóst að þær voru af þeirri stærðargráðu að alþjóðleg neyðaraðstoð væri aðkallandi. Hjálparstarf kirkjunnar sendi 22. febrúar rúmar 25 milljónir króna til systurstofnana í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance, sem veita fórnarlömbum jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi neyðaraðstoð. Framlag Hjálparstarfsins er að meðtöldum veglegum styrk utanríkisráðuneytisins til verkefnisins.