Hjálparstarf kirkjunnar veitir mannúðaraðstoð í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins, LWF DWS, og systursamtök og -stofnanir í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance, sem samhæfir mannúðaraðstoð með hjálparstofnunum Sameinuðu þjóðanna og starfar eftir ströngustu stöðlum um faglegt hjálparstarf. Á starfsárinu júlí 2019 - júní 2020 sendi Hjálparstarf kirkjunnar rúmar 39 milljónir króna til mannúðaraðstoðar systurstofnana í Malaví, Sýrlandi og Jórdaníu vegna átakanna í Sýrlandi og í Írak.

Í nóvember 2019 sendi Hjálparstarf kirkjunnar, með fjárstuðningi frá utanríkisráðuneytinu, 7,4 milljónir króna til Malaví þar sem evangelíska-lútherska kirkjan (ELDS) hefur veitt aðstoð þúsundum sem hafa átt um sárt að binda eftir að fellibylurinn Idai reið yfir landið. Mósambík varð verst úti í fellibylnum en í Simbabve og Malaví varð einnig manntjón og mikil eyðilegging.

Fellibylurinn reið yfir í mars 2019 og flóð í kjölfar hans urðu til þess að 56 fórust í Malaví og um 83 þúsund íbúar misstu heimili sín. Að mati Samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (OCHA) hafði fellibylurinn neikvæð áhrif á lífsafkomu rúmlega 930 þúsund íbúa í landinu.

ELDS er meðal fjölda hjálparstofnana sem hafa veitt neyðaraðstoð á vettvangi hamfaranna frá fyrstu stundu en verkefnið sem Ísland styður lýkur í september 2020. ELDS setti sér það markmið í upphafi að aðstoða þá 8.800 íbúa í héruðunum Phalombe og Chikwawa sem verst urðu úti með því að útvega þeim næringarríka fæðu og tryggja þeim aðgengi að drykkjarhæfu vatni og hreinlætisaðstöðu.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á að börn yngri en fimm ára fái næga næringu og að íbúarnir njóti sálfélagslegs stuðnings til að takast á við streitu í kjölfar hamfaranna. Þá hefur verið unnið að því að styrkja viðbragðsgetu samfélagsins við hamförum og bændur hafa fengið aðstoð við að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað.

Fjármögnun verkefnisins gekk hægar en vonast var til í upphafi og hafði það áhrif á framgang þess. Á fyrstu mánuðum þess tókst þannig að útvega 50% markhópsins, 4.400 íbúum, næringarríka fæðupakka sem samanstanda af maís, baunum og matarolíu, og  400 börn yngri en fimm ára, 92% markhópsins, fengu sérstaka næringarpakka.

Betur hefur gengið með að tryggja aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu en 98% markhópsins fengu strax á fyrstu mánuðum eftir hamfarirnar hreinsitöflur, áhöld og fræðslu um mikilvægi hreinlætis. Viðgerð var lokið á brunnum og vatnsdælustöðvum og bændur höfðu fengið korn og verkfæri til ræktunar undir lok árs 2019.

Einn mikilvægasti þátturinn í verkefninu er samvinnan við fólkið á staðnum og sveitarstjórnir um að efla viðbragðsgetu þegar náttúruhamfarir verða. Fimmtíu almannavarnafulltrúar hafa fengið fræðslu og þjálfun í gerð viðbragðsáætlana og handbók á máli heimamanna hefur verið gefin út um varnir og viðbrögð við náttúruvá.

Milljónir íbúa hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna stríðsins sem hefur geisað í Sýrlandi frá árinu 2011. Neyðin er mikil og brýnt að koma fólkinu til hjálpar. Hjálparstarf kirkjunnar, með styrk frá utanríkisráðuneytinu, hefur lagt sitt af mörkum frá árinu 2014 og sent samtals um 108 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðar við fólk á vergangi innan Sýrlands sem og við stríðshrjáða Sýrlendinga sem hafast að í flóttamannabúðum í nágrannaríkjum, þar á meðal í Jórdaníu.

Rúmlega tuttugu og ein milljón króna var send til mannúðaraðstoðar við fólk vegna átakanna í Sýrlandi í maí 2020 en þá var áætlað að tæplega tólf milljónir manns þyrftu á aðstoð að halda, þar af rúmlega sex milljónir á vergangi innan Sýrlands en um fimm milljónir flóttamanna frá Sýrlandi þurftu á aðstoð að halda í nágrannalöndunum Tyrklandi, Líbanon og Jórdaníu. Fjárframlagið fór til verkefna Lútherska heimssambandsins í Sýrlandi og Jórdaníu sem ná samtals til rúmlega 2.300 einstaklinga. Langflestir þeirra lifa undir fátæktarmörkum og eiga í erfiðleikum með að mæta brýnustu þörfum fyrir mat og skjól. Þá er mikil þörf fyrir menntun, starfsþjálfun og úrræði til að auka tekjumöguleika fjölskyldna. 

Í Írak ríkir neyðarástand vegna átaka. Í maí 2020 sendi  Hjálparstarf kirkjunnar, með styrk frá utanríkisráðuneytinu, rúmlega 10,5 milljóna króna fjárframlag til mannúðaraðstoðar Lútherska heimssambandsins við fleiri en 22 þúsund einstaklinga þar sem að stórum hluta er fólk á vergangi en líka fólk sem hefur snúið heim eftir að hafa flosnað upp og þarf stuðning til að koma undir sig fótunum aftur. Verkefnið snýst meðal annars um að hjálpa til við endurbætur á húsnæði, gera við brunna, kamra og aðra hreinlætisaðstöðu. Einnig felst í verkefninu ýmiss konar fræðsla um hreinlæti, kynbundið ofbeldi, jafnrétti og mannréttindi, að ógleymdum námskeiðum sem tengjast því að fjölga tekjumöguleikum.

Styrkja