Fullt var út úr dyrum á samráðsfundi mannréttindasamtaka um aðstæður réttindalausra hælisleitenda síðdegis í gær. Alls stóðu 28 hjálpar- og mannréttindasamtaka að fundinum. Þar kom fram skýr krafa um að fresta framkvæmd þjónustusviptingar þar til mannúðleg lausn er fundin. Eins var hugmynd um sérstakar „varðhaldsbúðir“ alfarið hafnað.

Samtökin höfðu áður lýst þungum áhyggjum af þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin í málefnum flóttafólks sem vísað hefur verið úr allri þjónustu opinberra aðila, eins og kom fram í tilkynningu 23 samtaka í síðustu viku. Þar hörmuðu samtökin að ekki skuli hafa verið tekið tillit til ítrekaðra varnaðarorða varðandi afleiðingar nýrra lagaákvæða. Þá leiki mikill vafi á að framkvæmdin standist þær mannréttindaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.

Fundurinn var afar vel sóttur en 28 samtök stóðu að fundinum.

Samtökin sem stóðu að fundinum í gær hafa sent frá sér yfirlýsingu sem er svo hljóðandi:

Sögulega stór hópur félagasamtaka auk biskups Íslands stóð saman að neyðarfundi til að ræða þá mannúðarkrísu sem upp er komin með framkvæmd nýrra útlendingalaga sem sviptir hóp fólks allri þjónustu. Samtökin höfðu áður gefið út yfirlýsingu þar sem lýst var áhyggjum af afdrifum, öryggi og mannlegri reisn þessa hóps og lýst yfir efasemdum um að framkvæmd laganna standist mannréttindaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist. Í framsögu fulltrúa samtakanna komu fram lýsingar á sárri neyð skjólstæðinga þeirra sem og skilaboð frá einstaklingum sem svipt hafa verið allri þjónustu. Skýr samstaða var um mikilvægi þess að fresta framkvæmd þjónustusviptingarinnar þar til mannúðlegri lausn hefur verið fundin. Þá var ljós andstaða framsögumanna um hugmyndir um varðhaldsbúðir, sem viðraðar hafa verið í fjölmiðlum nýlega. Skorað var á að stjórnvöld að nýta þekkingu og reynslu samtakanna sem og sjónarmið þeirra sem finna sig í þessum aðstæðum við lausn vandans. Samtökin munu áfram ræða saman og freista þess að fá svör stjórnvalda við þeim spurningum sem fram komu á fundinum.

Fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um fundinn í gær og í dag:

Morgunblaðið

RÚV

Vísir

Styrkja