Valdeflingarverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Kampala, höfuðborg Úganda, er í þágu barna og ungmenna á aldrinum 13-24 ára og og starfið fer fram í þremur af fátækrahverfum borgarinnar, Rubage, Nakawa og Makindye. Verkefnið er unnið í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins í Úganda og samtökin UYDEL (Ugandan Youth Development Link) sem hafa áratuga reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum borgarar. Sérstakar smiðjur, eða litlir verkmenntaskólar, eru starfræktar af UYDEL, ein í hverju þessara þriggja hverfa.

Markmiðið er að unga fólkið öðlist í smiðjunum verkkunnáttu sem eykur atvinnumöguleika þess. Ungmennin geta valið sér ýmiss svið og öðlast nægilega færni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, þjónustustörf, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð. Rúmlega 500 ungmenni útskrifast á hverju ári en á þeim tíma sem Hjálparstarfið og UYDEL hafa starfrækt verkefnið hafa rúmlega 3.500 ungmenni útskrifast og fjölmörg náð að fóta sig í lífinu á ný.

Auk verknáms taka ungmennin þátt í íþróttastarfi, uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmynd þeirra. Eins eru þau frædd um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu. Með fræðslu og valdeflingu má koma í veg fyrir að barnungar stúlkur verði þungaðar, hefta útbreiðslu HIV/alnæmis og kynsjúkdóma ásamt því að vinna gegn kynbundnu ofbeldi.

Þegar maður gengur um fátækrahverfi Kampala fallast manni hendur í fyrstu, aðstæður eru svo hrikalegar. Rusl er út um allt, opin skolpræsi, vond lykt og bágborið húsnæði sem fólkið þarf að gera sér að góðu. Hreinlæti er lítið og sökum fátæktar er matur einhæfur og af skornum skammti. Við slíkar aðstæður er aukin hætta á veikindum og slæmri heilsu. Börn og ungmenni eiga á hættu að vera misnotuð og mörg leiðast út í að selja líkama sinn og stela sér til matar. Vart er hægt að lýsa aðstæðum svo vel sé, svo öfgakenndar eru þær. Þrautseigja fólksins sem býr við þessar aðstæður er hins vegar aðdáunarverð.

Börn og ungmenni eiga á hættu að vera misnotuð og mörg leiðast út í að selja líkama sinn og stela sér til matar. Vart er hægt að lýsa aðstæðum svo vel sé, svo öfgakenndar eru þær.

Við þessar aðstæður eru smiðjurnar sem vin í eyðimörkinni, skjól þar sem ungmenni geta fengið fræðslu og verkkunnáttu sem gefur þeim tækifæri til að öðlast betra líf, tryggt sér vinnu eða geta með sjálfstæðum smárekstri aflað sér tekna. Félagsráðgjafar smiðjanna sinna einnig sálrænum stuðningi sem hjálpar þessu unga fólki að komast í gegnum áföll og erfiðleika sem hafa mótað líf þeirra. Kraftur starfsfólks verkefnisins er einstakur og að gefast upp, eða að láta sér fallast hendur, er ekki til í orðfæri þess.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri

Styrkja