Það er hvorki hátt til lofts né vítt til veggja á bifreiðaverkstæðinu MB Motor Garage í Kampala, höfuðborg Úganda. Á óupplýstu verkstæðinu úir og grúir af vélahlutum, verkfærum og fjölmörgu smálegu sem til fellur. Verkstæðið er reyndar svo lítið að öll helstu verk eru unnin utan dyra. Inni á verkstæðinu má engu að síður finna stóra drauma.

Malaika Faith Nabunya er 23 ára gömul stúlka sem ólst upp í þorpinu Kirenga sem stendur við þjóðveginn á milli Kampala og borgarinnar Jinja. Hún ólst upp í sárri fátækt ásamt fimm systkinum. Hún gerði sitt ítrasta til að afla sér menntunar en eins og fyrir fjölmörg önnur ungmenni í landinu reyndist það þrautin þyngri. Hún flosnaði upp úr skóla og hugðist leita nýrra tækifæra í stórborginni. Niðurstaðan varð að hún endaði á götunni og neyddist til að selja líkama sinn til að komast af.

„Ég get ekki útskýrt hversu vonlaust líf mitt var áður.“

Þannig dró hún fram lífið í nokkur ár eða þangað til í mars 2022 þegar félagsráðgjafar frá samtökunum UYDEL, sem hafa áratuga reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala, höfðu upp á henni og buðu aðstoð sína.

Öðlaðist von

„Ef ég hefði ekki fundið UYDEL þá væri allt vonlaust og ég ætti enga framtíð. Hjá þeim öðlaðist ég von um að líf mitt gæti breyst til batnaðar og ég ætti mér framtíð. Þau breyttu lífi mínu á allan hátt til hins betra. Ég get ekki útskýrt hversu vonlaust líf mitt var áður,“ sagði Malaika þegar starfsmenn Hjálparstarfsins heimsóttu hana nýlega í vinnuferð til Kampala. Hún bætti við að í smiðju UYDEL, sem staðsett er í fátækrahverfinu Banda, hafi hún valið að læra klæðskurð og hárgreiðslu því lengi hafði hún alið með sér þann draum að eignast sína eigin stofu þar sem hún gæti unnið við hönnun, hárgreiðslu og förðun.

Tækifærið nýtt til hins ítrasta

Mailaika greip tækifærið í smiðjunni tveim höndum. Hún var mjög virk í námi og starfi og áður en langt um leið hafði hún axlað þá ábyrgð að sinna jafningjafræðslu í smiðjunni. Eins annaðist hún mörg önnur ábyrgðarstörf á vegum samtakanna. Þegar Mailaika hafði aflað sér nægrar þekkingar og reynslu hóf hún atvinnuleit. Hún var svo heppin að fá vinnu tímabundið sem móttökuritari á heilsugæslustöð í hverfinu þar sem hún bjó. Þaðan lá leið hennar til starfa á snyrtistofu þar sem hún annaðist förðun og hárgreiðslu, og naut þar ríkulega námsins og starfsreynslunnar í smiðjunni.

Það kvikna því óneitanlega spurningar því við hittum hana á miðjum vinnudegi á litla bifreiðaverkstæðinu MB Motor Garage.

„Minn stóri draumur er að stofna mína eigin stofu. Hún verður stór og ekki bara fyrir mig eina. Ég hef nefnilega áætlun. Hér er ég búin að vinna í eitt ár en ætla að vinna sem vélvirki í þrjú ár samtals. Þá mun ég eiga nógu mikið af peningum til að stofna fyrirtækið mitt,“ segir Malaika og bætir við:

„Ég er vélvirki sem ætlar að vinna í tískubransanum.“

Lífið tekið stakkaskiptum

Hún útskýrir að vinkona hennar frá smiðjunni í Banda hafi þekkt til á verkstæðinu. Mál þróuðust óvænt með þeim hætti að henni var boðin vinna og nú ári síðar hefur hún lært nógu mikið til að vera trúað fyrir sífellt flóknari verkefnum og sinnir viðgerðum bæði á verkstæðinu og utan þess. Hún fann vélvirkjastarfið því fyrir tilviljun sem hentaði henni fullkomlega. Henni fannst hugmyndin góð þar sem hún ætlar að hefja eigin rekstur og eigandi verkstæðisins borgar henni fimmfalt hærri laun en henni standa til boða á hárgreiðslustofum borgarinnar.

„Ég hef nefnilega áætlun. Hér er ég búin að vinna í eitt ár en ætla að vinna sem vélvirki í þrjú ár samtals. Þá mun ég eiga nógu mikið af peningum til að stofna fyrirtækið mitt.“

Fyrir vikið hefur líf hennar tekið stakkaskiptum. Hún horfir til baka og endurtekur hversu vonlaust allt virtist vera fyrir svo skömmu síðan. Hún viðurkennir að henni hafi ekki líkað vel við vinnuna á verkstæðinu í fyrstu, en eftir því sem hún hefur lært meira því betur fellur henni starfið.

„Þetta er fín vinna. Strákarnir hér á verkstæðinu eru góðir við mig,“ segir Malaika hlægjandi og bætir við að starfið á verkstæðinu gerir henni kleift að lifa mannsæmandi lífi, láta svolítið af hendi rakna til fjölskyldunnar og ekki síst hefur henni tekist að spara töluverða upphæð.

„Draumurinn minn um mína eigin snyrti- og hönnunarstofu færist nær. Allt er á áætlun,“ segir Malaika og kveður.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja