Hjálparstarf kirkjunnar vill stuðla að aukinni almennri vitund um mannréttindi og mikilvægi félagslegs réttlætis fyrir almenna farsæld. Hjálparstarfið tekur þátt í EAPN á Íslandi og á fulltrúa í Velferðarvaktinni. Hjálparstarfið upplýsir almenning og stjórnvöld um kjör þeirra sem til stofnunarinnar leita og þrýstir á stjórnvöld um að bæta lífsskilyrði fólks sem býr við félagslega neyð. Hjálparstarfið leggur áherslu á velferð barna og vill tryggja möguleika þeirra til farsæls lífs.

EAPN á Íslandi eru regnhlífasamtök þeirra félaga sem berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun hérlendis og eiga aðild að evrópska tengslanetinu European Anti Poverty Network, stofnað árið 1990. Aðildarfélögin eru Félag einstæðra foreldra, Hagsmunasamtök heimilanna, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn, Kærleiksþjónusta kirkjunnar, Samhjálp, Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra, Velferðarsjóður Suðurnesja og Öryrkjabandalag Íslands.

Guðný Helena Guðmundsdóttir félagsráðgjafi er fulltrúi Hjálparstarfsins í EAPN á Íslandi og er formaður samtakanna.

Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi er fulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar í Velferðarvaktinni sem er óháður greiningar- og álitsgjafi og leggur fram tillögur til stjórnvalda og hagsmunasamtaka um leiðir til að styðja við fólk sem býr við efnislegan skort á réttlátan hátt og til að tryggja rétt barna til lífsafkomu sem nægir þeim til að ná fullum þroska.

Hjálparstarf kirkjunnar fræðir almenning á Íslandi um verkefni stofnunarinnar og ástæður fyrir þeim meðal annars í greinarskrifum og viðtölum við fjölmiðla.

Bjarni Gíslason er framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, sími 528 4402. Vilborg Oddsdóttir er umsjónarmaður innanlandsstarfs, sími 528 4403. Kristín Ólafsdóttir sér um fræðslu og fjáröflun, sími 528 4406.

Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði krossinn áttu frumkvæði að því að stofna samstarfshóp um enn betra samfélag og gáfu í kjölfarið út skýrsluna Farsæld – baráttan gegn fátækt sem kom út í október 2012. Skýrsluna má finna hér:  Farsæld – barátta gegn fátækt,

Styrkja