Í þróunarsamvinnu starfar Hjálparstarf kirkjunnar með staðbundnum hjálparsamtökum og Hjálparstarfi Lútherska heimssambandsins, LWF DWS, í þágu fólks í einna fátækustu samfélögum heims. Samstarfsaðilar Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu þekkja vandann af eigin raun og menninguna og tungumál á hverjum stað. Þeir eru á staðnum eftir að verkefnum lýkur og geta metið árangur þeirra. Meginmarkmið eru að fólk sem býr við sára fátækt geti séð sér farborða á sjálfbæran hátt. Sérstök áhersla er lögð á að tryggja velferð barna. Verndun umhverfisins og valdefling, og þá kvenna sérstaklega, eru áhersluþættir í verkefnunum sem unnin eru í samvinnu við fólkið sjálft á hverjum stað.

Aðgengi að vatni er forsenda farsældar

Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu er með sárafátækum sjálfsþurftarbændum í Sómalífylki í Eþíópíu en þar ógna þurrkar og óstöðugt veðurfar fæðuöryggi fólksins. Þegar lítið sem ekkert rignir á hefðbundnum regntíma verður uppskeran rýr og fátæktin sífellt sárari. Þegar loksins rignir er jarðvegurinn orðinn grjótharður og regnvatnið nær ekki að næra hann heldur rífur með krafti sínum ræktarland í sundur.

Meginmarkmið verkefnisins eru að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni, að fólkið geti aukið fæðuöryggi sitt með skilvirkum aðferðum í landbúnaði og umhverfisvernd og að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til farsældar. Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu með dyggum stuðningi frá einstaklingum og utanríkisráðuneytinu frá árinu 2008. Á fyrstu tíu árum þess náði aðstoðin beint og óbeint til fleiri en 130.000 einstaklinga í Jijigahéraði og breytti lífi þeirra til hins betra.

Brunnar eru grafnir og þar sem það er ekki mögulegt eru grafnar vatnsþrær fyrir regnvatn. Stíflur og veggir í árfarvegum eru reist til að halda regnvatni í farvegi og hefta eyðimerkurmyndun, nýjar og þurrkþolnari korntegundir eru kynntar til sögunnar sem og skilvirkari ræktunaraðferðir og betri verkfæri. Dýraliðar fá þjálfun í að meðhöndla dýrasjúkdóma og bólusetja búfé. Þá lærir fólkið að steypa sparhlóðir sem spara eldivið og minnka reykmengun við eldamennsku.

Konur taka þátt í sparnaðar- og lánahópum og fá fræðslu um hvernig best sé farið af stað með eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hefja margar kvennanna að reka litla búð, stunda geita- og hænsnarækt og rækta grænmeti. Konur sem taka þátt í verkefninu hafa talað um að þær hafi fjárráð og ákvörðunarvald en það var nær óþekkt að konur hefðu slíkt á verkefnasvæðunum áður.

Heildarframlag Hjálparstarfsins til verkefnisins árið 2022 voru 44,5 milljónir króna, en þar af var framlag utanríkisráðuneytisins 35,5 milljónir króna.

Frá árinu 2001 hefur Hjálparstarf kirkjunnar aðstoðað HIV smitaða, alnæmissjúka, aðstandendur þeirra og eftirlifendur upp til sveita í Úganda. Frá árinu 2016 hefur aðstoðin verið veitt í sveitarfélögunum Rakai og Lyantonde í samstarfi við grasrótarsamtökin Rakai Community Based AIDS Organization, RACOBAO, sem sprottin eru upp úr hjálparstarfi Lútherska heimssambandsins á svæðinu. Uppbygging staðbundinna hjálparsamtaka eins og RACOBAO er talin ein helsta stoð virkrar þróunarsamvinnu og hlaut Hjálparstarf kirkjunnar lof fyrir samvinnu við samtökin í úttektarskýrslu sænska ráðgjafafyrirtækisins NIRAS fyrir utanríkisráðuneytið árið 2017.

Samkvæmt upplýsingasíðunni avert.org um alnæmi í Afríku er talið að um 23.000 manns hafi látist af völdum sjúkdómsins í Úganda á árinu 2018. Algengi HIV/alnæmis á landsvísu var þá 5,7% en í sveitahéruðunum Rakai og Lyantonde er algengi sjúkdómsins hins vegar töluvert meira eða um 12%. Skjólstæðingar verkefnis Hjálparstarfsins þar eru fyrst og fremst börn sem misst hafa foreldra sína af völdum alnæmis og búa ein en líka HIV smitaðir einstæðir foreldrar og ömmur sem hafa börn á framfæri og búa við sára fátækt. Fjölskyldur sem búa erfiðustu aðstæðurnar njóta sérstaks stuðnings en nágrannar þeirra njóta einnig stuðnings með beinum og óbeinum hætti.

Áhersla er lögð á að bæta lífsskilyrði fólksins sem býr við nístandi skort með því að reisa múrsteinshús sem eru útbúin grunnhúsbúnaði og eldaskála með hlóðum sem spara eldsneyti. Reistir eru kamrar við hlið húsanna, fólkið fær fræðslu um samband hreinlætis og smithættu og hvernig bæta má hreinlætisaðstöðu. Aðgengi fólksins að hreinu vatni er aukið með því að koma upp 4000 lítra vatnssöfnunartönkum við hlið íbúðarhúsanna. Þegar börnin þurfa ekki að fara eftir vatni um langan veg hafa þau tíma til að sækja skólann. Hættan á kynferðislegri misnotkun minnkar einnig þegar stúlkur þurfa ekki að fara fjarri heimilinu eftir vatni í morgunsárið.

Fólkið fær geitur, verkfæri, fræ og útsæði til grænmetisræktunar, allt í þeim tilgangi að auka fæðuval og möguleika fjölskyldnanna til að afla sér tekna. Með fjölbreyttari fæðu verður heilsa fjölskyldnanna betri og með tekjum aukast líkur á að börnin geti sótt skóla og fengið menntun. Með aukinni menntun minnka líkur á að stúlkur verði gefnar barnungar í hjónaband og eignist börn á unglingsaldri. Með stuðningi er vítahringur fátæktar rofinn.

Heildarframlag Hjálparstarfsins til verkefnisins árið 2022 var 20,5 milljónir króna og þar af var framlag utanríkisráðuneytisins 16,3 milljónir króna.

Valdeflingarverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar sem hófst í janúar 2017 er í þágu barna og ungmenna á aldrinum 13 – 24 ára í fátækrahverfum Rubage, Nakawa og Makindye í Kampala, höfuðborg Úganda. Fyrsta fasa verkefnisins lauk í árslok 2019 en á þremur árum náði það til fleiri en 1500 barna og ungmenna. Í byrjun árs 2020 hófst næsti fasi verkefnisins en honum lýkur nú í árslok 2023. Á fjórum árum mun verkefnið ná til 2000 barna og ungmenna til viðbótar.

Í Úganda búa um 46 milljónir íbúa. Nær helmingur þeirra er yngri en 15 ára. Þrátt fyrir að langflestir búi í sveitum landsins og lifi af landbúnaði flykkist fólk í síauknum mæli til höfuðborgarinnar í leit að betra lífi. Þar bíður flestra hins vegar eymdarlíf í fátækrahverfum en 40%  íbúa Kampala, um 700 þúsund manns, búa við sára fátækt.

Atvinnutækifæri í Kampala eru fá og mörg ungmenni skortir menntun og þjálfun til að eiga möguleika á að sækja um störf eða reyna fyrir sér með eigin rekstur. Börn og unglingar í fátækrahverfunum eru því útsett fyrir misnotkun sökum fátæktar og eymdin leiðir til þess að þau verða auðveldlega fíkniefnum að bráð. Neyðin rekur unglingana til að taka þátt í glæpagengjum eða selja líkama sinn til að geta séð sér farborða.

Markmið með verkefni Hjálparstarfsins er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem eykur atvinnumöguleika þess. Einnig að unglingarnir taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu. Með fræðslu og valdeflingu má koma í veg fyrir að barnungar stúlkur verði þungaðar, hefta útbreiðslu HIV/alnæmis og kynsjúkdóma ásamt því að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Í verkefninu er sérstök áhersla lögð á að ná til stúlkna, ungra kvenna og einstaklinga með fötlun.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins í Úganda og samtökin UYDEL (Ugandan Youth Development Link) sem hafa áratuga reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. UYDEL er einnig leiðandi í málsvarastarfi fyrir börn og unglinga á landsvísu og ýta á aðgerðir gegn mansali og barnaþrælkun í álfunni og á heimsvísu.

Í smiðjum UYDEL geta ungmennin valið sér ýmis svið og öðlast nægilega færni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð. Einnig eru á dagskrá dans, leik- og sönglist og íþróttir. Í smiðjunum er jafningjafræðsla veitt um kynheilbrigði og um rétt ungs fólks til heilbrigðisþjónustu. Samhliða fræðslunni fá unglingarnir smokka. Mikið er lagt upp úr því að styrkja sjálfsmynd unglinganna sem koma úr ömurlegum aðstæðum í fátækrahverfunum.

UYDEL aðstoðar unglingana sem koma í smiðjurnar við að komast á starfsnemasamning hjá fyrirtækjum í Kampala og í framhaldinu að fá þar vinnu. Einn þáttur í náminu hjá UYDEL er verslunarfræði en mörg þeirra sem ekki fá starf hjá fyrirtæki eftir námið opna eigin búðarbás og selja til dæmis flíkur sem þau hafa saumað eða viðgerðarþjónustu.

Heildarframlag Hjálparstarfsins til verkefnisins árið 2022 voru 16 milljónir króna, en þar af var framlag utanríkisráðuneytisins 12,7 milljónir króna.

Styrkja