Hún Jónína Helga Björgvinsdóttir, sem búsett er í Kópavogi, kom á dögunum við á skrifstofu Hjálparstarfsins með báðar hendur fullar af sokkum sem hún hefur prjónað á síðustu mánuðum. Sokkana gaf hún Hjálparstarfinu með þeim orðum að hana grunaði að þeir kæmu sér vel fyrir þau sem ekki hafa mikið handa á milli.

Þetta er fjarri því að vera í fyrsta skipti sem Jónína Helga kemur færandi hendi til Hjálparstarfsins því heimsóknirnar hafa verið margar og reglulegar undanfarin ár þar sem hún gefur afurðir vinnu sinnar.

„Ég byrjaði að prjóna af fullum krafti þegar ég hætti að vinna árið 2013“, segir Jónína Helga en margir aðrir en Hjálparstarfið njóta gjafmildi hennar og vinnusemi.

„Ég kom síðast til ykkar eftir áramótin, og ég er búin að prjóna þessi 45 pör síðan. En ég hef líka farið tvær ferðir í Rauða krossinn með fjörutíu pör af lopavettlingum í hvort skipti – mér finnst gott að nota lopann í vettlinga fyrir þau. Mér finnst lopinn hálf ónýtur í sokka en hlýtt fyrir þá sem liggja úti. En svo prjóna ég líka á börnin mín og langömmubörnin,“ segir Jónína Helga hlægjandi og bætir því við að hún geti ekki hugsað sér að sitja aðgerðalaus. Þar er engu logið því aðspurð segist hún vera um það bil þrjá klukkutíma með sokkinn.

„Mér leiðist aðgerðaleysi og vil því frekar gera eitthvað sem verður að gagni fyrir aðra. Það gefur mér afar mikið og ég veit að þetta kemur sér vel hér. Mér finnst gott að koma við hjá ykkur. Þetta gefur mér jafn mikið og ykkur,“ segir hún að lokum.

Styrkja