Félagsráðgjafar eru með opinn viðtalstíma á miðvikudögum klukkan 12 – 15 á skrifstofu Hjálparstarfs kirkjunnar, Háaleitisbraut 66, neðri hæð Grensáskirkju en einnig er hægt að hringja og panta viðtal utan þess tíma í síma 528 4400. Einstaklingsmiðuð nálgun og notendastýrð þjónusta eru lykilverkfæri félagsráðgjafanna sem leggja höfuðáherslu á að hlusta á og ræða við einstaklingana sem til þeirra leita og vinna með þeim á forsendum þeirra sjálfra. Félagsráðgjafarnir benda jafnframt á úrræði í samfélaginu sem kunna að gagnast fólki við að takast á við erfiðar aðstæður.

Efnislegur stuðningur er nauðsynlegur til þess að svara brýnni þörf fólks í félagslegri neyð en til þess að fólk komist út úr vítahring fátæktar og félagslegrar einangrunar þarf að takast á við aðstæður á heildrænan hátt. Með það að markmiði að stuðla að aukinni virkni fólks í félagslegri neyð skipuleggja félagsráðgjafar Hjálparstarfs kirkjunnar reglulega sjálfstyrkingarnámskeið og hópastarf í samráði við þá sem aðstoðar leita hjá stofnuninni.

Töskur með tilgang er samvinnuverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins fyrir konur úr hópi innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda sem eru utan vinnumarkaðar. Konurnar sem höfðu lýst þörf fyrir virkni af einhverju tagi í samtali við félagsráðgjafa Hjálparstarfsins, sníða og sauma fjölnota innkaupatöskur og -poka og fleira úr efni sem almenningur hefur gefið og nota til þess saumavélar sem almenningur hefur gefið sömuleiðis. Hjálparstarf kirkjunnar selur afurðirnar og andvirðið rennur aftur til verkefnisins. Konurnar stuðla þannig að umhverfisvernd um leið og þær fá tækifæri til að vera virkar og njóta félagsskapar. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi, vilborg@help.is.

Stattu með sjálfri þér – virkni til farsældar hófst í september 2022. Markmið verkefnisins til tveggja ára eru að þátttakendur, konur sem búa við örorku og eru með börn á framfæri, fái bætt sjálfsmynd sína og aukna trú á eigin getu; að þær styrki tengslanet sitt til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og eflist í foreldrahlutverkinu. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Lovísa Mjöll Kristjánsdóttir, lovisa@help.is.

Ræktaðu garðinn þinn er hópastarf sem stendur yfir sumartímann þar sem þátttakendur fá pláss í matjurtagörðum sveitarfélaga og fá þar tækifæri til að rækta sitt eigið grænmeti. Nánari upplýsingar veitir Júlía Margrét Rúnarsdóttir félagsráðgjafi, julia@help.is.

Samvera og góðar minningar er heiti á úrræði fyrir barnafjölskyldur sem dreymir um að fara í sumarfrí á Íslandi en ráða ekki við kostnað sem því fylgir. Verkefnið er unnið í samstarfi með Hjálpræðishernum á Íslandi. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi, vilborg@help.is.

Sumarfrí innanlands að eigin vali.  Í sumarbyrjun 2020 þegar landsmenn fóru að nýta sér Ferðagjöf stjórnvalda í stórum stíl ákvað Hjálparstarf kirkjunnar að brydda upp á þeirri nýjung að bjóða fjölskyldum sem búa við kröpp kjör að fara í sumarleyfi innanlands að eigin vali með stuðningi Hjálparstarfsins. Í verkefninu felst mikil valdefling þar sem börnin fá tækifæri til að upplifa jákvæða orku með mömmu og pabba og kynnast sjálfum sér og fjölskyldunni betur í nýjum aðstæðum. Einnig er valdeflandi fyrir börnin að geta tekið þátt í umræðum með skólasystkinum í upphafi skólaárs um ævintýri sumarsins en þegar fólk býr við fátækt er því hættara við félagslegri útilokun. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi, vilborg@help.is.

Styrkja