Tæplega þrjár og hálf milljón Eþíópa eru á vergangi innan landamæra landsins, að mati Alþjóðlegu fólksflutningastofnunar Sameinuðu þjóðanna (IOM). Flóttafólkið heldur til á um það bil 2.500 stöðum á tólf aðskildum svæðum innan landsins, segir í úttekt samtakanna.

Ástæður þess að fólk hefur flúið heimili sín eru þrennar helstar; ófriður, þurrkar og spenna á milli ólíkra hópa. Lang algengast er að fólk sé á flótta vegna ófriðar (64%) og langvarandi þurrka (17%). Tvö fylki landsins skera sig úr; Tigray þar sem flestir eru á flótta vegna stríðsátaka og Somalífylki þar sem þurrkar eru rót vandans en hvergi í landinu eru fleiri sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna veðuröfga.

Starfssvæði Hjálparstarfsins

Þessi tvö fylki Eþíópíu – Somalí- og Tigrayfylki – eru starfssvæði Hjálparstarfsins í landinu. Í júní árið 2022 sendi Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna (Act Alliance) út neyðarbeiðni vegna þurrka í þremur ríkjum Afríku; Sómalíu, Keníu og Eþíópíu. Í kjölfar hennar sendi Hjálparstarf kirkjunnar framlag til mannúðaraðstoðarinnar. Framlag Íslendinga var eyrnamerkt mannúðaraðstoð Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins, LWF/DWS í Oromía- og Sómalífylkjum í Eþíópíu. Í Sómalífylki nær mannúðaraðstoð LWF meðal annars til Kebri Beyah héraðs en þar er stærsta einstaka verkefni Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu.

Dýrin falla í miklum þurrkum og víða má sjá hræ liggja og rotna í hitanum.

Hjálparstarfið hefur jafnframt stutt við mannúðaraðstoð vegna stríðsátakanna í Tigray. Aðstoðin fólst þar fyrst og fremst í því að vernda líf og afkomu fólks, bæta fæðuöryggi með því að útvega korn og verkfæri til landbúnaðar, úthluta búfé, tryggja fólki húsaskjól og veita beinan óskilyrtan fjárstuðning. Í febrúar 2022 sendi Hjálparstarfið svo framlag til mannúðaraðstoðar í Amhara, nágrannafylki Tigray.

Vandinn er margslunginn

Í umfjölluninni sem IOM sendi frá sér í janúar segir jafnframt að vandinn einskorðast ekki við þá sem eru á flótta frá heimilum sínum heldur einnig vegna þeirra sem eru að snúa aftur til heimkynna sinna. Innan Eþíópíu á þetta við um tvær og hálfa milljón manna um allt landið. Flestir eru á heimleið eftir að hafa flúið borgarastríð sem geisaði í Tigrayfylki á árunum 2020 til 2022. Eins má finna fjölda fólks í þessari stöðu í Amharafylki, þar sem átök hafa geisað í tæpt ár, og Afarfylki.

Alþjóðlega fólksflutningastofnunin hefur frá árinu 2016 kannað vanda flóttafólks innan landamæra Eþíópíu með kerfisbundnum hætti. Sú aðferðafræði hefur skilað nákvæmari upplýsingum um fjölda og stöðu flóttafólks, hvar fólkið dvelur á hverjum tíma og hverjar þarfir þess eru. Þessar upplýsingar liggja til grundvallar samstarfs við eþíópísk stjórnvöld (Ethiopia Disaster Risk Management Commission).

Sérstaklega er tekið til þess í umfjöllun IOM að mat á fjölda flóttafólks innan landamæra Eþíópíu og stöðu þess er takmörkunum háð. Ófriður kemur þar helst við sögu en einnig að svæði innan landsins eru óaðgengileg vegna lélegra samgangna eða landfræðilegra aðstæðna.

Styrkja