Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum blasir nú hungursneyð við yfir 20 milljónum íbúa í Austur-Afríkulöndunum Keníu, Eþíópíu og Sómalíu. Ástæðan er verstu þurrkar sem þar hafa orðið í 40 ár. Ríflega sjö milljónir þessara íbúa eru börn.

Regntímabil síðustu fimm ára hafa verið langt undir meðallagi eða brugðist algerlega. Aðgengi að vatni sem var slæmt fyrir hefur enn versnað og nú er svo komið að rúmlega ellefu milljónir íbúa hafa ekki aðgengi að nægu drykkjarvatni. Fólkið sem verður einna verst úti í þurrkunum er flóttafólk og fólk á vergangi. Búfé sjálfsþurftarbænda stráfellur í þurrkunum og uppskera er lítil sem engin. Stríðið í Úkraínu hefur þess utan valdið mikilli verðhækkun á matarverði og það gerir slæmt ástand enn verra. Átök í Tigrayfylki í Norður-Eþíópíu þar sem Frelsisher Tigraymanna hefur barist fyrir sjálfstæðu ríki bætir svo gráu ofan á svart í Eþíópíu.

Milljónir íbúa í sárri þörf

Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna, ACT Alliance, stendur fyrir mannúðaraðstoð í löndunum þremur og með góðum stuðningi utanríkisráðuneytisins og almennings sendir Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi fjárframlag til mannúðarverkefnis í Eþíópíu. Framkvæmdaraðili þar er Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins sem hefur starfað í Eþíópíu samfleytt síðan árið 1971 og hefur því miður oft áður þurft að glíma við neyðarástand í landinu. Samstarf þess við stjórnvöld, hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna og önnur samtök sem sinna mannúðarstarfi hefur alla tíð verið náið og markvisst.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins, var í eftirlitsferð um verkefnasvæðið í Austur-Eþíópíu í maí síðastliðnum. Hér er hann við borholu sem mun gagnast um 25.000 íbúum í Sómalífylki sem áður þurftu að sækja vatn um 20 km. langan vel.

Í júlí síðastliðnum sendi Hjálparstarf kirkjunnar 21,7 milljónir króna til mannúðarverkefnis Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu og fékk til þess styrk frá utanríkisráðuneytinu. Markmið verkefnisins er að tryggja aðgengi ríflega fimmtíu þúsund fjölskyldna að hreinu vatni. Um tólf þúsund fjölskyldur fá hráefni til matargerðar og stuðning til að efla lífsviðurværi sitt. Að auki fá fleiri en sex þúsund fjölskyldur stuðning svo þær geti aukið þolgæði sitt og þá er unnið að því að styrkja stöðu kvenna og stúlkna í  þrjú þúsund og sex hundruð fjölskyldum. Samtals nær verkefnið til rúmlega fjögur hundruð þúsund einstaklinga en árangur ræðst fyrst og fremst af því fjármagni sem tekst að afla til þess en þörf er fyrir rúmar 200 milljónir króna.

„Þegar ástandið er jafn slæmt og raun ber vitni í Eþíópíu um þessar mundir má segja að skil milli mannúðar- og þróunarsamvinnuverkefna séu óljós og að þau renni saman í eitt. Hjálparstarf kirkjunnar er með þróunarsamvinnuverkefni í Sómalíufylki í Austur-Eþíópíu en þar er eitt af meginmarkmiðum að auka aðgengi að vatni og vernda náttúruauðlindir. Markmiðið er alltaf að bjarga mannslífum, tryggja fæðu og aðgengi að vatni, styrkja lífsviðurværi og sjálfbærni til framtíðar,“ segir Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins.

Hér má finna upplýsingar um mannúðarstarf og þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar.

Gjöf sem gefur aftur og aftur er tilvalin jólagjöf – laumaðu geit í pakkann! Þú getur líka gefið vatn!

Styrkja