Sr. Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkirkjunni, ákvað fyrir nokkru að standa fyrir góðgerðar morgunverði eftir guðsþjónustu síðastliðins sunnudags. Söfnun til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar var tilefni þess og afar vel tókst til. Yfir 50 kirkjugestir nutu veitinga í safnaðarheimili Dómkirkjunnar þar sem borð svignuðu undan kræsingum; nýbökuðum bollum, Lúsíubrauði, hjónabandssælu og ný steiktum kleinum og er þá fátt eitt nefnt.

Elínborg, sem hafði varið tveimur laugardögum til að undirbúa veitingarnar, fékk aðstoð sjálfboðaliða við eldhússtörf og frágang og það söfnuðust 134.500 krónur til styrktar Hjálparstarfinu

Það er reynsla mín að fólk er mjög velviljað Hjálparstarfi kirkjunnar. Meðan ég var prestur í Stafholti í Borgarfirði bauð ég alltaf í kirkjukaffi eftir messu og yfirleitt var baukur í anddyrinu þar sem fólk gat gefið til starfsins. Mér fannst að það væri góð hugmynd að standa fyrir einhverju svipuðu hér í miðborginni eftir að ég varð dómkirkjuprestur árið 2018.“

Endurvakið kirkjukaffi

Með þessu framtaki var Elínborg að endurvekja viðburð sem hún stóð fyrir áður en heimsfaraldurinn hóf innreið sína.

„Fyrir þremur árum bauð ég mörgum vinum mínum til messu á aðventunni og stóð fyrir kirkjukaffi á eftir í safnaðarheimilinu. Það tókst mjög vel og þá kom fram ósk um það að þetta yrði árlegur viðburður, en svo kom covid og ekkert um að vera á aðventunni vegna samkomutakmarkana,“ segir Elínborg og bætir við.

„Eftir að stríðið braust út í Úkraínu eldaði ég eldrauða rauðrófusúpu til stuðnings við neyðarsöfnun Hjálparstarfsins vegna stríðsins og núna á aðventunni fékk ég leyfi til að endurtaka góðgerðar morgunverðinn frá því fyrir þremur árum.“

Ómetanlegt stuðningsnet

Elínborg segir að henni hafi alltaf fundist gaman að halda boð, elda og baka og því hafi hún notið þess að verja tíma sínum til að undirbúa morgunverðinn með heimatilbúnum veitingum.

Eins má segja að kirkjukaffið eigi sér djúpar rætur í lífi Elínborgar.

„Frá því að ég starfaði sem símastúlka og ritari á Biskupsstofu fyrir næstum 30 árum og fylgdist með starfi Hjálparstarfs kirkjunnar, sem þá var undir sama þaki, hefur mér alltaf þótt mikið til starfsins koma. Ég kynntist því enn betur þau ár sem ég sat í stjórn Hjálparstarfsins, hve mikill metnaður og fagmennska einkennir allt starfið, ekki síst stuðninginn við alla þá sem búa við fátækt hér á landi.

Elínborg segist vera þeirrar skoðunar að söfnuðirnir í landinu gætu komið með enn myndarlegri hætti að því að styðja við Hjálparstarfið og lyfta því upp.

„Hjálparstarf kirkjunnar er ómetanlegt stuðningsnet fyrir okkur prestana til að geta stutt við fólk í fátækt á faglegan hátt,“ segir Elínborg.

Hér má lesa allt um innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar.

Vilt þú styrkja hjálparstarfið? Með því að gerast Hjálparliði hjálpar þú fólki sem býr við fátækt á Íslandi og í fátækustu samfélögum heims.

 

Styrkja