Börn í fermingarfræðslu þjóðkirkjunnar gengu í hús í fleiri en 60 sóknum um land allt í nóvember síðastliðnum. Börnin gáfu þannig af tíma sínum til að safna fé til verkefna Hjálparstarfsins í Afríku.

Alls söfnuðu fermingarbörnin tilvonandi 7.484.737 krónum og er framlag þeirra og fólksins sem tók vel á móti þeim afar dýrmætt. Prestar, annað starfsfólk kirkna, foreldrar og síðast en ekki síst börnin sjálf lögðu á sig mikla vinnu við söfnunina og er framlag þeirra ómetanlegt.

Fjáröflun með aðstoð fermingarbarna

 

Söfnunin í fyrrahaust var sú tuttugasta og önnur í röðinni en hugmyndin að þessu samstarfi Hjálparstarfsins við safnaði og kirkjur landsins kviknaði árið 1999. Hún var borin bréflega undir presta um allt land þá um haustið og var afar vel tekið. Safnanir fermingarbarna hafa síðan þá verið árlegur viðburður, ef haustið 2020 er tekið út fyrir sviga þegar ekki var safnað með formlegum hætti vegna sóttvarna í heimsfaraldri.

Dansmaraþon

Um 30 börn í Reykholts-, Stafholts-, Borgar- og Skálholtsprestakalli héldu svo dansmaraþon á dögunum og söfnuðu áheitum í stað þess að banka upp á hjá fólki með bauk í hönd.

Fermingarfræðslan útheimtir lestur af ýmsu tagi. Mynd/Heiðrún Helga

 

Er þetta í annað sinn sem krakkar í Borgarfirði dansa til styrktar vatnsverkefni Hjálparstarfsins.

Hugmyndin vaknaði út frá því að sum barnanna búa í sveitinni og eiga því erfitt með að ganga í hús og því var þessi leið farin. Áheitum fyrir vatnsverkefnið var safnað í síma og á facebook og dansað í sólarhring. Einnig var fræðslu um verkefnið, helgistund og fermingarfræðslu fléttað saman við dansinn.

Alls söfnuðu krakkarnir rétt um 250.000 krónum, sem er risastórt framlag – vægast sagt!

 

Ef þú vilt lesa um innlent sem erlent starf Hjálparstarfsins má finna nýja fréttabréfið hér. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Viltu styrkja starfið?

 

 

Styrkja