„Skjólið hefur sannað sig sem mikilvægur hlekkur í aðstoð við heimilislaust fólk, en í okkar tilfelli við konur sem glíma við þessa stöðu í sínu lífi,“ segir Rósa Björg Brynjarsdóttir, umsjónarkona Skjólsins – opins húss fyrir konur sem glíma við heimilisleysi, sem opnaði dyr sínar árið 2021, eða fyrir rétt rúmlega tveimur árum.

Frá opnun Skjólsins hafa rúmlega 100 konur á aldrinum 18 – 72 ára komið í heimsókn. Á árinu 2022 komu 65 konur í 1.648 heimsóknir. Af þessum 65 konum voru 30 konur að koma í fyrsta skipti. Að meðaltali voru þá sjö konur í húsi á hverjum degi en að meðaltali komu 20 konur í heimsókn í hverjum mánuði.

Í febrúar og mars 2023 hefur aldrei verið eins mikil aðsókn í Skjólið en að meðaltali hafa verið 9-10 konur í húsi á hverjum degi, og allt að því 13-14 einstaka daga sem sýnir hversu mikil þörfin er.

Öruggur staður

Rósa Björg segir ljóst að aðalmarkmið Skjólsins sé að veita konunum öruggan stað til að vera á yfir daginn þar sem þær geta sinnt grunnþörfum sínum. Þarfir kvennanna eru mismunandi eftir hverri og einni en einnig getur verið dagamunur á hver þörfin er, en þær fá alla þá aðstoð sem þær óska eftir og aðstöðu og aðstoð við að sinna því allra nauðsynlegasta í daglegu lífi. Eins geta konurnar mælt sér mót við félagsráðgjafa, VoR — vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar, Frú Ragnheiði sem Rauði krossinn rekur og fleiri sem koma að félags – og heilbrigðisþjónustu.

„Það eru margir sem starfa að þessum málum og við erum svo sannarlega ekkert eyland.“

Engin í óskastöðu

„Það óskar sér enginn að vera heimilislaus,“ segir Rósa Björg sem leggur þunga áherslu á að starf Skjólsins felst ekki í því að bjarga nokkrum manni. Það sé mikilvægt að hafa í huga, þegar unnið er með fullorðnu fólki, að þetta er þeirra líf sem er á þeirra ábyrgð. Það sé hægt að leiðbeina og styðja en það sé á þeirra forsendum og oft að þeirra frumkvæði í hverju aðstoðin felst.

Rósa Björg segir að margar ástæður geti legið að baki þess að fólk verður heimilislaust, en allar eigi konurnar sem sækja Skjólið heim það sameiginlegt að eiga sögu áfalla. Þegar staðan er sú að kona er orðin heimilislaus sé hún berskjölduð fyrir endurteknum áföllum. Flestar noti þær því ýmis ráð til að deyfa þann sársauka sem áföllin bera með sér og eru þeirra bjargráð í einhverjum tilfellum ýmiss konar löglegir og ólöglegir vímugjafar.

„Fyrst og fremst eru þær þó konur eins og við hinar, eiga fjölskyldu og vini og vilja tilheyra samfélaginu. Þær eiga sér drauma og þrár, eru margar hverjar mikið menntaðar en einhvers staðar á leiðinni skrikaði þeim fótur. Við sem manneskjur eigum meira sammannlegt en það sem skilur okkur að og getur hver sem er staðið í þeirra sporum. Aðspurð sagði ein af okkar konum að hún skammast sín ekki fyrir þá stöðu sem hún er í enda hafði hún enga stjórn á þeim aðstæðum sem hún lenti í,“ sagði Rósa Björg nýlega í viðtali við kirkjan.is í tilefni tveggja ára starfsafmælis Skjólsins.

Ef þú vilt lesa um innlent sem erlent starf Hjálparstarfsins má finna nýja fréttabréfið hér. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Viltu styrkja starfið?

 

Styrkja