Fyrstu skrefin í nýju þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Malaví voru tekin upphafi árs. Markmið verkefnisins er að aðstoða fjölda fólks á þúsundum heimila við að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn öfgum í veðri af völdum loftslagsbreytinga og tryggja lífsviðurværi og fæðuöryggi fólks eins vel og mögulegt er. Þar er ekki síst horft til þess að grípa til varna þar sem veðuröfgar ganga harkalega á ræktarland, bæði vegna flóða og þurrka.

Rammasamningar Hjálparstarfs kirkjunnar og utanríkisráðuneytisins voru undirritaður í fyrra en þeir hverfast um stuðning ráðuneytisins við verkefni Hjálparstarfsins á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Samkvæmt samningunum leggur ráðuneytið til framlag sem nemur stórum hluta af kostnaði við skilgreind verkefni. Verkefnið í Malaví sem er til þriggja ára og spannar árabilið 2023 til 2025 er sett á fót á grundvelli rammasamninganna.

Fyrsta vers

Malaví er landlukt land í Suðaustur-Afríku og liggur á milli Mósambík, Sambíu og Tansaníu. Helsta einkenni Malaví er Malaví-vatn sem nær yfir tæplega fimmtung landsins, en samtals er flatarmál Malaví 120 þúsund ferkílómetrar, litlu stærra en Ísland. Malaví er eitt fátækasta ríki heims en íbúar landsins eru um 20 milljónir. Landið er í 169 sæti af 191 á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (2021) en til samanburðar er Ísland þar iðulega í efstu fimm sætunum á milli ára.

Ítarlega umfjöllun um nýtt verkefni Hjálparstarfsins í Malaví má finna í nýju fréttabréfi Hjálparstarfsins.

Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins og Kristín Ólafsdóttir, verkefnastýra erlendra verkefna, fóru í vinnuferð til Malaví vikuna 21.-26. janúar sl. og var ferðin fyrsta vers í undirbúningi verkefnisins þar í landi. Vinnuferðin farin  til að kynnast samstarfsaðilum Hjálparstarfsins í landinu og undirbúa vinnuna framundan.

Áhugi heimamanna var áþreifanlegur, að sögn Bjarna og ferðin vel heppnuð. Hann segir að malavískt samfélag sé afturhaldssamt og staða kvenna beri þess merki. Eins sé greinilegt að fólkið er afar trúað og kirkjan er mikilvæg stofnun í samfélagi þeirra. Prestar á svæðinu eru því mikilvægir þátttakendur í starfinu og kynna m.a. verkefnin þegar fólk sækir guðsþjónustu.

Spilling er rótgróin í Malaví þó teikn séu á lofti um að árangur hafi náðst í þessu sambandi; Alþjóðabankinn hefur t.d. snúið til baka og tekur þátt í verkefnum en hafði áður bakkað út vegna vandamála tengd spillingu. Verkefni Hjálparstarfsins í Malaví verður unnið í samstarfi við Sambandi evangilískra kirkna (Evangelical Association of Malawi, EAM) sem njóta virðingar fyrir fagleg vinnubrögð í þróunarsamvinnu. Það er trú Hjálparstarfsins að grasrótarverkefni samtakanna megi teljast líklegra til skila árangri en ef fjármagn færi um hendur yfirvalda þar sem spilling er kerfislægur vandi.

Vatn til vandræða

Kristín verkefnastýra þekkir best til starfsins Malaví.

Kristín Ólafsdóttir

„Það sem einkennir verkefnasvæðið okkar í Chikwawa er að þar verða oft flóð og það er rótin að vanda fólksins á því svæði sem við munum starfa. Rigningar fjarri héraðinu valda flóðunum sem gera mikinn skaða sökum þess að búið er að höggva niður skóga í fjallshlíðunum en vegna fátæktar hafa íbúar svæðanna neyðst til að nýta viðinn með þessum afleiðingum,“ segir Kristín og bætir við að verkefnið snúist um að fólkið geti hjálpar sér sjálft, og því felst verkefnið ekki síst í fræðslu og námskeiðahaldi.

„Eitthvað það mikilvægasta er fræðsla, t.d. um mikilvægi þess að endurheimta gróður og tré sem bindur vatn í jarðveginum. Eins mun fræðslan lúta að því að efla viðbragðsgetu samfélagsins þegar hættulegar aðstæður skapast vegna rigninga. Þegar rignir á svæðum sem hafa áhrif í Chikwawa þá er nauðsynlegt að fólk viti það í tíma, t.d. til  að verja ræktuð svæði og uppskeru. Það má líkja þessu við almannavarnir sem við þekkjum hér heima. Eins má nefna átak til að fjölga þeim tegunum matjurta sem ræktaðar eru; í Chikwawa rækta nær allir maís og á uppskerutíma skapast offramboð sem veldur því að lítið fæst fyrir uppskeruna. Fjölbreyttari afurðir og skilvirkari ræktunaraðferðir eru líklegar til að skila íbúum svæðisins bættum hag.

Fiskirækt kemur líka við sögu og bændurnir fá aðstoð við að stofna samvinnufélög. Slík félög gera bændunum frekar kleift að selja sínar eigin afurðir á markaði svo að ágóðinn nýtist þeim beint, en milliliðir éti ekki upp arðinn af vinnu þeirra.

„Þessir milliliðir kaupa gjarnan uppskeruna á lágu verði af fátækum bændum en selja á mun betra verði á markaði síðar,“ segir Kristín.

Malaví fyrr og nú

Starfssaga Hjálparstarfsins í landinu teygir sig all langt aftur. Á árunum 2005 til 2014 studdi Hjálparstarfið verkefni Evangelical Lutheran Development Service (ELDS) í Malaví sem snérist um vatnsöflun og betra lífsviðurværi fyrir um 900 fjölskyldur sjálfsþurftarbænda í 37 þorpum, og einmitt í Chikwawa héraði.

Krakkar í þorpi einu í Malaví en myndin var tekin í vettvangsferð Hjálparstarfsins í janúar.

Markmiðið með verkefninu var að auka aðgengi að hreinu vatni með því grafa brunna og kenna fólki að nýta vatn til að tryggja betur fæðuöryggi. Eins snéri verkefnið að því að byggja kamra og handþvottaaðstöðu og fræða um nauðsyn hreinlætis. Trjám var plantað og námskeið voru haldin um umhverfisvernd og sjálfbærni. Þá var jarðrækt þróuð með nýjum korntegundum og skepnuhald styrkt með því að bændur fengu geitur og hænur til að bæta lífsafkomu sína. Það er því vel hægt að halda því á lofti að verkefnið sem nú er hafið sé framhald eldri verkefna í Malaví, þó áherslur séu að einhverju leyti aðrar.

 

 

 

Ef þú vilt lesa um innlent sem erlent starf Hjálparstarfsins má finna nýja fréttabréfið hér. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Viltu styrkja starfið?

Styrkja