Efnahagslegar og félagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins, vopnuð átök víða um heim og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga hafa dýpkað gjána á milli fátækra og ríkra og gert fleiri útstetta fyrir sárafátækt. Þá eru ótalin þau áhrif sem innrás Rússlandshers í Úkraínu hafa haft og koma til með að hafa á líf fólksins í Úkraínu og á efnahagskerfi heimsins í heild sinni.

Vopnaðar fylkingar hafa háð blóðug stríð í Afganistan, Eþíópíu, Myanmar, Líbanon, Jemen, Sómalíu og fleiri ríkjum og  þar hafa átökin, heimsfaraldurinn og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga leitt til fæðuskorts og hungursneyðar. Andstaða í mörgum löndum gegn mannréttindum, jafnrétti kynjanna og lýðræði hafa svo gert slæmt ástand þar enn verra.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar.

Í yfirlitsskýrslu UNOCHA frá júlí 2022 kemur fram að sífellt fleiri jarðarbúar þurfi á mannúðaraðstoð að halda. Á aðeins sex mánuðum, eða frá því í desember 2021, hafði þeim fjölgað um 9,9 milljónir eða úr 296 milljónum í 305,9 milljónir manns.

Það er því ljóst að töluvert bakslag hefur orðið í viðleitni mannkyns til að útrýma sárafátækt og líkur á því að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun náist fyrir árið 2030 fara þverrandi. Þörfin fyrir afgerandi aðgerðir sem auka á samhygð og sjálfbærni í heiminum er því brýn sem aldrei fyrr.

Í verkefnum á alþjóðavettvangi starfar Hjálparstarf kirkjunnar með systurstofnunum í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna – ACT Alliance. Í samtökunum eru nú 137 kirkjutengdar hjálparstofnanir sem starfa í 127 löndum, í þróunarsamvinnu og við að veita mannúðaraðstoð.

Samtök og stofnanir í ACT Alliance verða að fylgja ströngum stöðlum um faglegt hjálparstarf sem er byggt á náungakærleik og á þeirri forsendu að við eigum öll jafnan rétt á því að njóta verndar og að grunnþörfum okkar sé mætt.

Einn af kostum þess að vinna með systurstofnunum í ACT Alliance er að þær eru þegar á vettvangi, þær vinna í grasrótinni, tala tungumálið og þekkja menninguna. Þær eru kunnugar staðháttum. Alveg eins og Hjálparstarf kirkjunnar vinnur hér heima í samfélaginu í samstarfi við presta og þjónustuveitendur ríkis og sveitarfélaga.

Í starfi okkar treystum við á stuðning hjartahlýrra einstaklinga, félaga, stofnana og fyrirtækja og fyrir þann stuðning erum við innilega þakklát!

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar.

Hér má finna upplýsingar um mannúðarstarf og þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar.

Gjöf sem gefur aftur og aftur er tilvalin jólagjöf – laumaðu geit í pakkann! Þú getur líka gefið vatn!

Styrkja