Eftir fund sinn í Ósló þann 25. ágúst síðastliðinn sendu framkvæmdastjórar Hjálparstarfs kirkjunnar á Norðurlöndum frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Nú þegar heimsbyggðin býr við síaukið óöryggi og milljarðar manna standa andspænis átökum, fátækt, fæðuóöryggi og loftslagsvá, brýnum við stjórnvöld á Norðurlöndum til þess að þau grípi í sameiningu til afgerandi aðgerða sem auki á samhygð og sjálfbærni í heiminum.

Við höfum þungar áhyggjur af þeim fjölda áskorana sem við jarðarbúar stöndum frammi fyrir en sem mæða mest á þeim sem minnst mega sín. Þeir sem þurfa á þróunar- og mannúðaraðstoð að halda hafa ekki verið fleiri síðan í seinni heimsstyrjöld og andstaða í mörgum löndum gegn mannréttindum, jafnrétti kynjanna og lýðræði gerir slæmt ástand enn verra.

Við skorum á stjórnvöld á Norðurlöndum að þau auki samstarf sín í milli og sameinist um að verja gildi eins og mannréttindi, lýðræði, jafnrétti og að allir fái að taka þátt – gildi sem eru í hávegi höfð á Norðurlöndunum en sem eiga undir högg að sækja víða um heim. Við viljum að Norðurlandaþjóðirnar  séu hugrakkar, sýni frumkvæði og að þær sameinist um aðgerðir til að verja þessi gildi.

Norðurlöndin hafa þessi gildi nú þegar í heiðri en þörf er á auknu samnorrænu frumkvæði. Alþjóðlegt skipulag sem byggir á sterkum grunnreglum og fylgir þeim eftir er nauðsynlegt, einnig fyrir Norðurlöndin.

Við hvetjum stjórnvöld á Norðurlöndum einnig til að halda áfram öflugri mannúðaraðstoð og þróunarsamvinnu og að þau tryggi gæði í alþjóðasamstarfi  og að enginn verði útundan þegar unnið er að heimsmarkmiðunum.

Einnig leggjum við áherslu á að kostnaður við bóluefni, aðstoð við flóttafólk og aðgerðir til að bregðast við loftslagsbreytingum sé greiddur úr öðrum sjóðum en þeim sem ætlaðir eru til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Ríkar þjóðir verða að nýta þá margvíslegu sjóði sem þær geta gengið að til að berjast gegn alþjóðlegum vanda og virkja einnig einkageirann. Að öðrum kosti verður heimsmarkmiðunum ekki náð.

Á fundinum í Ósló voru framkvæmdastjórar Hjálparstarfs kirkjunnar í Danmörku (DCA), Noregi (NCA), Finnlandi (FCA), Svíþjóð (ACT Church of Sweden) og Íslandi (ICA), en öll eru þau í tengslanetinu ACT Alliance.

Nánari upplýsingar veitir Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, sími 528 4402.

Styrkja