Dagana 18., 19. og 23. ágúst næstkomandi, klukkan 10 – 12, tekur Hjálparstarf kirkjunnar á móti foreldrum sem ekki hafa efni á að kaupa skólatöskur, vetrarfatnað, íþróttavörur og fleira sem til fellur í upphafi skólaárs leik- og grunnskólabarna. Utan höfuðborgarsvæðisins bendum við fólki á að hafa samband við prest í heimasókn sem hefur milligöngu um aðstoð.

Fólk sem leitar til Hjálparstarfs kirkjunnar kvíðir haustinu. Ársverðbólga mælist nú um 10% og húsaleiga, bensín og matarkarfan hækka verulega í verði. Fjölskyldurnar sem verða harðast úti eru þær sem nú þegar eiga erfitt með að ná endum saman.

Hjálparstarfinu er sérstaklega umhugað um velferð barna en börn sem búa við fátækt eru útsett fyrir félagslegri einangrun sem getur valdið þeim sársauka og haft langvarandi félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar.

Á hverju hausti aðstoðum við barnafjölskyldur sem búa við kröpp kjör sérstaklega til þess að koma í veg fyrir þessa félagslegu einangrun barnanna. Foreldrar njóta aðstoðar svo börnin geti stundað íþróttir og tómstundastarf með jafnöldrum sínum óháð efnahag fjölskyldunnar. Nemendur í framhaldsskólum fá einnig styrki fyrir skólagjöldum og efniskostnaði.

Í fyrrahaust nutu foreldrar um 200 barna aðstoðar Hjálparstarfsins og við gerum ráð fyrir að jafnmargir eða fleiri komi til okkar nú.

Samhliða aðstoð við barnafjölskyldur hefjum við söfnun undir slagorðinu Ekkert barn útundan! og sendum 2.600 króna valgreiðslu í heimabanka landsmanna.

Styrkja