„Aldrei í sögunni hefur sárafátækt í heiminum mælst jafn lítil og síðasta ár,“ sagði í frétt á vefmiðlinum Vísi þann 3. janúar 2019. Í fréttinni kom jafnframt fram að á árinu 2018 hefðu 736 milljónir jarðarbúa búið við sárafátækt eða um einn af hverjum tíu. Miðað við þá staðreynd að á árinu 1990 bjó einn af hverjum þremur jarðarbúa við örbirgð voru þetta stórkostlegar fréttir.

Þennan frábæra árangur hafa sérfræðingar að stórum hluta rakið til þróunarsamvinnu sem miðar að því að bæta smám saman slæmt ástand sem hefur varað lengi og kallar á uppbyggingu innviða og nýtingu auðlinda á sjálfbæran hátt.

Þegar Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt árið 2015 var stefnt að því að þeim yrði náð árið 2030 og að þá myndi enginn búa við það sára fátækt að eiga minna en 1,25 bandaríkjadali til að framfleyta sér á degi hverjum.

Því miður benda nýjustu spár til þess heimsfaraldurinn af völdum kórónuveirunnar geti orðið til þess að á þessu ári fjölgi um allt að 150 milljónum manna í hópi þeirra sem búa við örbirgð. Það er ömurlegt bakslag í viðleitninni um að útrýma sárafátækt og vonin um að heimsmarkmiðin náist á tilsettum tíma fer dvínandi.

Þegar mikilvægir markaðir fyrir vörur og þjónustu lokast eins og nú gerist vegna heimsfaraldursins hefur fólk sem selur afurðir sínar á markaði ekkert til að lifa af. Afleiðingarnar í efnaminni ríkjum heims þar sem fólk er þegar útsett fyrir sárafátækt eru minna aðgengi að vatni, næringarskortur, skortur á heilbrigðisþjónustu, aukin hætta á menntunarleysi, aukið ofbeldi, félagsleg útskúfun og þverrandi tækifæri til að sjá sér farborða.

Þá hefur það sýnt sig að COVID-19 eykur hættuna á ójöfnuði innan og milli samfélaga og þar með aukast líkur á átökum. Það er því alveg ljóst að við stöndum frammi fyrir stórum verkefnum sem við jarðarbúar þurfum að fara saman í á heimsvísu.

Sérfræðingar í þróunarsamvinnu segja að lágtekjulöndin séu vön því að fást við hamfarir og búi yfir þrautseigju sem þau geti nýtt sér til þess að ná sér tiltölulega fljótt aftur á strik- af því gefnu að þau fái þá utanaðkomandi aðstoð sem þau þurfa.

Það er í okkar valdi og á okkar ábyrgð að við skiljum engin samfélög eftir við endurreisn efnahagsins þegar við höfum náð yfirhöndinni í baráttunni við COVID-19! Það getum við sem íslenskt samfélag gert með því að gefa enn frekar í og auka opinber framlög til þróunarsamvinnu í stað þess að draga úr eins og sumar þjóðir hafa nú þegar gert.

Látum ekki veirufjandann stoppa okkur! Með samhug og samvinnu getum við endurbirt fyrirsögnina frá 3. janúar 2019 áður en langt um líður.

Kristín Ólafsdóttir, fræðslufulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar

Styrkja