Hjálparstarf kirkjunnar tekur nú á móti umsóknum frá barnafjölskyldum sem búa við kröpp kjör um aðstoð í upphafi skólaárs. Þrátt fyrir að námsgögn og ritföng séu orðin gjaldfrjáls í flestöllum grunnskólum landsins fylgir skólagöngu barna töluverður kostnaður sem efnalitlar fjölskyldur ráða illa eða ekki við.

Við tökum á móti umsóknum á skrifstofunni á neðri hæð Grensáskirkju, Háaleitisbraut 66 í Reykjavík á virkum dögum klukkan 10 – 15. Vegna kórónuveirufaraldurs viljum við biðja fólk um að panta tíma hjá félagsráðgjafa okkar í síma 5284400 áður en það mætir til okkar.

Vilborg Oddsóttir félagsráðgjafi er umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfs kirkjunnar. Hún segir  að umsóknum um efnislega aðstoð hafi fjölgað um 41% síðustu fimm mánuði miðað við sama tímabil í fyrra. „Við  vitum svo að staðan verður erfið hjá mörgum í haust, ekki síst hjá barnafjölskyldum.  Mjög stór hluti ráðstöfunartekna fjölskyldnanna sem til okkar leita fer í að greiða fyrir húsnæði og lítið er eftir til að fæða og klæða börnin. Okkar markmið er að börnin einangrist ekki félagslega vegna bágs efnahags fjölskyldunnar.“

Hjálparstarf kirkjunnar hefur jafnframt hafið fjáröflun fyrir verkefninu með því að senda valgreiðslu að upphæð 2.600 krónur í heimabanka landsmanna.

Styrkja