Fraktflugvél á vegum íslenskra stjórnvalda flaug í nótt með 100 tonn af neyðarbirgðum til jarðskjálftasvæðanna í Tyrklandi þar sem milljónir manna eru húsnæðislausar. Þá hefur utanríkisráðherra ákveðið að veita 50 milljón króna neyðarframlagi til Sýrlands vegna ástandsins sem skapaðist þar í kjölfar skjálftanna fyrr í mánuðinum, að því kemur fram í frétt utanríkisráðuneytisins.

Hjálparstarf kirkjunnar sendi 22. febrúar rúmar 25 milljónir króna til systurstofnana í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance, sem veita fórnarlömbum jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi neyðaraðstoð. Upphaflega stóð til að leggja hjálparsamtökum á svæðinu til ellefu milljónir króna en  nú, hálfum mánuði eftir að náttúruhamfarirnar riðu yfir, er ljóst að neyð fólksins í löndunum tveimur er enn meiri en leit út fyrir í upphafi. Því ákvað Hjálparstarfið að hækka framlagið í rúmar 25 milljónir króna til hjálparstarfs á vettvangi. Framlag Hjálparstarfsins er að meðtöldum veglegum styrk utanríkisráðuneytisins til verkefnisins.

Tjöld og teppi

Í frétt ráðuneytisins segir að neyðarbirgðunum, sem samanstanda af 1.500 tjöldum og 8.400 teppum, var flogið frá Lahore í Pakistan og áætlað er að vélin lendi síðdegis í Adana í Tyrklandi. Fastanefnd Tyrklands hjá Atlantshafsbandalaginu óskaði eftir aðstoð bandalagsríkja við flutning neyðarbirgðanna og kom Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri bandalagsins beiðninni á framfæri í lok fundar varnarmálaráðherra bandalagsins 15. febrúar síðastliðinn.

„Staðan á jarðskjálftasvæðunum í Tyrlandi er skelfileg. Ísland tók virkan þátt í björgunarstarfinu þar sem okkar fólk frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg vann fórnfúst starf fyrstu dagana eftir jarðskjálftana. Nú aðstoðum við með því að sjá um flutninga á 100 tonnum af neyðarbirgðum til Tyrklands, tjöld og teppi fyrir fólk sem misst hefur allt sitt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, í fréttinni.

Stuðningur við Sýrland

Utanríkisráðherra hefur einnig ákveðið að veita 50 milljón króna neyðarframlagi til Sýrlands vegna jarðskjálftanna 6. febrúar síðastliðinn til að koma til móts við ákall Samhæfingaskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA). OCHA áætlar að um níu milljónir manna hafi orðið fyrir áhrifum af jarðskjálftunum.

„Við megum ekki gleyma fólkinu í Sýrlandi, þar sem stríð hefur staðið yfir í tólf ár og leitt af sér miklar hörmungar fyrir íbúana. Jarðskjálftarnir eru enn eitt höggið fyrir þessar brotthættu byggðir og þörfin fyrir aðstoð alþjóðasamfélagsins aldrei verið brýnni,“ segir Þórdís Kolbrún um framlagið til Sýrlands.

Framlaginu er veitt í svæðasjóð OCHA fyrir Sýrland sem er ætlað að auka skilvirkni mannúðaraðstoðar á svæðinu og einnig færa aðstoðina nær þeim sem hana þurfa.

Neyðarsöfnun Hjálparstarfsins hófst daginn sem jarðskjálftarnir riðu yfir og er í fullum gangi. 

Gefa stakt framlag á vefsíðunni: https://www.styrkja.is/ney%C3%B0arsofnun-hjalparstarfskirkjunnar-syrland-jar%C3%B0skjalftar

Leggja inn á söfnunarreikning númer 0334-26-886; kennitala: 450670-0499

Hringja í söfnunarsímann 907 2003 (2500 krónur)

Styrkja