Hjálparstarf kirkjunnar sendi fyrr í dag rúmar 25 milljónir króna til systurstofnana í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance, sem veita fórnarlömbum jarðskjálftanna í Tyrklandi og Sýrlandi neyðaraðstoð. Upphaflega stóð til að leggja hjálparsamtökum á svæðinu til ellefu milljónir króna en  nú, hálfum mánuði eftir að náttúruhamfarirnar riðu yfir, er ljóst að neyð fólksins í löndunum tveimur er enn meiri en leit út fyrir í upphafi. Því ákvað Hjálparstarfið að hækka framlagið og sendi fyrr í dag rúmar 25 milljónir króna til hjálparstarfs á vettvangi. Framlag Hjálparstarfsins er að meðtöldum veglegum styrk utanríkisráðuneytisins til verkefnisins.

Neyðarsöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar hófst um leið og ljóst var hversu alvarlegir atburðir höfðu átt sér stað þann 6. febrúar sl. Þá strax höfðu systursamtök Hjálparstarfsins á staðnum hafið mat á því hvernig bregðast ætti við með sem skilvirkustum hætti. Á sama tíma var hjálpargögnum dreift; mat, lyfjum, dýnum, teppum og hlýjum klæðnaði.

Gríðarleg eyðilegging

Upplýsingar frá hamfarasvæðunum staðfesta nú að þörfin er margföld miðað við þá stöðu sem viðbragðsaðilar töldu í upphafi að væri við að eiga. Tyrknesk yfirvöld greindu frá því í tilkynningu á sunnudag að yfir 100.000 byggingar væru ónýtar með öllu, og þá taldar þær sem hrundu til jarðar strax eða þær sem eru svo illa farnar eftir skjálftana að niðurrif þeirra er óumflýjanlegt.

Tölfræði tyrkneskra yfirvalda er ekki síst ógnvænleg í því ljósi að í fyrrnefndum byggingum voru 384.500 íbúðir sem eru ónýtar. Ef þessi tölfræði er sett í íslenskt samhengi má vísa til Fasteignaskrár Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem segir að fjöldi íbúða á Íslandi í árslok 2022 hafi verið  158.939.

Í Sýrlandi er ljóst að eyðileggingin er gríðarleg. Greint hefur verið frá milljónum manna sem eiga hvergi höfði sínu að halla. Hins vegar berast ekki nákvæmar upplýsingar frá skjálftasvæðunum þar um umfang eyðileggingarinnar. Það er mat Hjálparstarfs kirkjunnar að vegna jarðskjálftana, sem bættu gráu ofan á svart eftir áralangt borgarastríð, muni 25 milljóna króna framlagið best nýtast systursamtökum í ACT Alliance sem starfa í Sýrlandi.

Milljónir þurfa aðstoð

Eftirlifendur náttúruhamfaranna hafast nú við á götum úti eða í neyðarskýlum. Þeir eru allslausir að kalla og háðir neyðaraðstoð. Næstu vikurnar þarf að hlúa að slösuðum, skjóta skjólshúsi yfir þá sem hafa misst heimili sín og miðla hjálpargögnum til þeirra sem hafa misst aleigu sína. Verkefnin eru óteljandi og af margvíslegum toga.

Fram hefur komið að þegar hafa yfir 46.000 manns fundist látin. Hvorki tyrknesk yfirvöld né sýrlensk hafa gefið út hversu margra er saknað. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, (WHO) telur að 26 milljónir manna í löndunum tveimur eigi um sárt að binda og þurfi á neyðaraðstoð að halda.

Hægt er að leggja neyðarsöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar lið með eftirfarandi hætti:

Gefa stakt framlag á vefsíðunni: https://www.styrkja.is/ney%C3%B0arsofnun-hjalparstarfskirkjunnar-syrland-jar%C3%B0skjalftar

Leggja inn á söfnunarreikning númer 0334-26-886; kennitala: 450670-0499

Hringja í söfnunarsímann 907 2003 (2500 krónur)

 

Styrkja