Á annað hundrað barnafjölskyldur leituðu stuðnings hjá Hjálparstarfi kirkjunnar nú í upphafi skólaárs. Innan þessara fjölskyldna eru tæplega 300 börn en umsækjendur voru af 22 þjóðernum. Fátt bendir til annars en að fjöldi fólks þurfi aðstoð Hjálparstarfsins fyrir jólin.

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og verkefnastýra innlendra verkefna hjá Hjálparstarfinu, metur stöðuna með þeim hætti að enn þrengi að þeim hópi sem var fyrir í viðkvæmri stöðu. Talsvert fleiri leita aðstoðar til Hjálparstarfsins þessi misserin samanborið við fyrri ár, eins og upphaf skólaársins í haust sýnir glöggt.

Vilborg Oddsdóttir, umsjónarkona innlendra verkefna Hjálparstarfsins

„Það sem mér finnst svíða sárast er að fólk sem við höfum ekki séð í mörg ár þarf nú að leita til okkar aftur,“ segir Vilborg og bætir við að þessi hópur var jafnvel búinn að koma sér ágætlega fyrir og hefur ekki þurft að leita aðstoðar um skeið.

„En núna er húsaleiga svo há og matarkostnaður orðinn svo mikill að fólk sér enga aðra leið en að leita aftur til hjálparsamtaka. Og það er náttúrulega bara mjög sorglegt að upplifa það,“ segir Vilborg í viðtali við Rúv.

Þrengir enn að

Staðan nú endurspeglar fyrra ár þegar starfsfólk Hjálparstarfsins urðu með áþreifanlegum hætti vart við að þrengingar fólks voru að aukast. Þá um haustið leitaði áþekkur hópur fólks eftir aðstoð í upphafi skólaársins. Þá höfðu í rúmlega 50 ára sögu Hjálparstarfsins aldrei borist jafn margar umsóknir um neyðaraðstoð í upphafi skólaárs. Til samanburðar sótti 81 fjölskylda yfir 200 barna um sambærilega aðstoð árið 2021. Hækkun matvöruverðs, húsnæðiskostnaðar og afborgana lána vegna breyttra vaxtakjara er helsta skýringin á fjölgun milli ára.

Margir í erfiðri stöðu

Hjálparstarf kirkjunnar veitir fólki sem býr við fátækt á Íslandi efnislegan stuðning og félagslega ráðgjöf allt árið. Neyðaraðstoð felst fyrst og fremst í að aðstoða fólk til matarinnkaupa en einnig er veitt annars konar aðstoð.

Aldrei er þörfin eins áberandi og um jólin en starfsmenn Hjálparstarfsins eru þegar byrjaðir að undirbúa úthlutun í aðdraganda hátíðanna, sem er annasamasti tími ársins. Vilborg gerir ráð fyrir að fólki í leit að aðstoð eigi eftir að fjölga. Margir eru í mjög erfiðri stöðu og því ekkert sem bendir til annars en að fleiri leiti stuðnings fyrir komandi jól en undanfarin ár.

„Þegar útborguð laun eru ekki að duga fyrir húsaleigu og þú átt eingöngu húsnæðisstuðninginn og barnabætur til að lifa af. Það er náttúrulega ekki hægt að bjóða einum eða neinum það. Við þurfum að fara að laga húsnæðismálin okkar, þau eru í hræðilegu óefni í dag,“ segir Vilborg en ljóst að jólin verða örugglega mjög erfið fyrir marga enda sá tími ársins þar sem fjárútlát heimila eru hvað mest. Það verður sífellt dýrara fyrir fólk að halda jól og starfsmenn Hjálparstarfsins gera sér grein fyrir því að þetta verður þungur vetur fyrir marga.

Hér má lesa allt um innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar. Viltu styrkja starfið?

Vilt þú styrkja hjálparstarfið? Með því að gerast Hjálparliði hjálpar þú fólki sem býr við fátækt á Íslandi og í fátækustu samfélögum heims.

 

 

Styrkja