Frá árinu 2001 hefur Hjálparstarfið aðstoðað HIV smitaða, alnæmissjúka, aðstandendur þeirra og eftirlifendur upp til sveita í Úganda. Skjólstæðingar verkefnisins eru fyrst og fremst börn sem misst hafa foreldra sína af völdum alnæmis og búa ein en líka HIV smitaðir einstæðir foreldrar og ömmur sem hafa börn á framfæri og búa við sára fátækt.

Áhersla er lögð á að bæta lífsskilyrði fólksins sem býr við nístandi skort með því að reisa múrsteinshús sem eru útbúin grunnhúsbúnaði og eldaskála með hlóðum sem spara eldsneyti. Reistir eru kamrar við hlið húsanna, fólkið fær fræðslu um samband hreinlætis og smithættu og hvernig bæta má hreinlætisaðstöðu.

Átta hús árlega

Á árinu 2022 vatt verkefninu fram samkvæmt áætlun og fengu átta fjölskyldur sem bjuggu við sára neyð múrsteinshús til afnota, ásamt því að fá innbú og verkfæri til að yrkja lítinn jarðskika við húsið. Svo verður einnig á yfirstandandi starfsári en í upphafi verkefnisins voru allt að 20 slík hús reist innan hvers starfsárs.

Nýja húsið breytir lífi fólks til batnaðar.

Í vettvangsferð í mars 2023 hittu fulltrúar Hjálparstarfsins skjólstæðinga verkefnisins og sjálfboðaliða sem störfuðu með þeim. Var eftir því tekið að hús sem voru reist á upphafsárum verkefnisins eru enn í ágætu ásigkomulagi og hafa nýst fólkinu þar um langt árabil.

Hreint vatn og geitur

Stór hluti verkefnisins er að bæta aðgengi fólksins að hreinu vatni með því að koma upp stórum vatnssöfnunartönkum við hlið íbúðarhúsanna. Þetta er afar mikilvægt og ekki síst í því ljósi að þegar börnin þurfa ekki að fara eftir vatni um langan veg, hafa þau tíma til að sækja skólann. Hættan á kynferðislegri misnotkun minnkar einnig þegar stúlkur þurfa ekki að fara fjarri heimilinu eftir vatni í morgunsárið.

Fólkið fær auk þess geitur, verkfæri, fræ og útsæði til grænmetisræktunar, allt í þeim tilgangi að auka fæðuval og möguleika fjölskyldnanna til að afla sér tekna. Með fjölbreyttari fæðu verður heilsa fjölskyldnanna betri og með meiri tekjum aukast líkur á að börnin geti sótt skóla og fengið menntun. Með aukinni menntun minnka líkur á að stúlkur verði gefnar barnungar í hjónaband og eignist börn á unglingsaldri. Með stuðningi er vítahringur fátæktar rofinn.

Þau bjuggu í hreysi

Enid að sækja vatn í vatnstank við nýja húsið.

Enid Tumushabe er ein þeirra sem hafa fengið afhent múrsteinshús sem stórbætir lífsgæði fjölskyldu hennar. Enid er 67 ára og býr í þorpinu Kitovu í Lyantonde með þremur barnabörnum sínum sem eru sex, sjö og tíu ára. Þau eru öll í skóla en hafa aldrei getað sótt hann eins og skyldi. Ástæða þess eru skólagjöld og skólagögn sem Enid hefur ekki getað greitt fyrir. Þau bjuggu í hreysi þar sem engin aðstaða er til að matreiða og þar er heldur engin salernisaðstaða. Enid er ekkja en hún missti eiginmann sinn og öll börnin sín á fyrra æviskeiði.

Húsið sem þau hafa búið í um langt árabil heldur hvorki vatni né vindum. Þegar veður var óhagstætt, sérstaklega ef rigndi, var útilokað fyrir Enid og börnin að sofa í húsinu. Draumur Enid í þessu lífi er að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því hvaðan næsta máltíð kemur, en til þessa hefur það ætíð verið verkefni dagsins.

Enid að ganga inn í nýja eldhúsið sitt.

Heildarkostnaður verkefnisins starfsárið 2022-2023 nam 24,2 milljónum króna.

Styrkja