Hjálparstarf kirkjunnar tekur nú á móti umsóknum frá barnafjölskyldum sem búa við kröpp kjör um aðstoð í upphafi skólaárs en þrátt fyrir að námsgögn og ritföng séu gjaldfrjáls í langflestum grunnskólum landsins fylgir skólagöngu barna töluverður kostnaður sem efnalitlar fjölskyldur ráða illa við.

Við tökum á móti umsóknum á skrifstofunni á neðri hæð Grensáskirkju, Háaleitisbraut 66 í Reykjavík á fimmtudaginn 26. ágúst klukkan 13 til 15 og svo alltaf á miðvikudögum klukkan 10 – 15. Vegna kórónuveirufaraldurs viljum við biðja fólk um að panta tíma hjá félagsráðgjafa okkar í síma 5284400 áður en það mætir til okkar eða sækja um hér.

„Í fyrrahaust fengu foreldrar 120 skólabarna aðstoð hjá okkur um vetrarfatnað, skólatöskur og annað sem börnin vantaði í skólabyrjun. Við vitum hins vegar ekki hversu mörgum við getum átt von á núna,“ segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar. Barnafjölskyldur njóta aðstoðar allt árið um kring og börnin fá aðstoð svo þau geti stundað íþróttir, listnám og tómstundir með jafnöldrum sínum, óháð fjárhag fjölskyldunnar. Þá fá ungmenni aðstoð svo þau geti haldið áfram námi á framhaldsskólastigi.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur jafnframt hafið fjáröflun fyrir verkefninu með því að senda valgreiðslu að upphæð 2.600 krónur í heimabanka landsmanna.

Á myndinni eru Mjöll Þórarinsdóttir og Bergþóra Njálsdóttir sjálfboðaliðar Hjálparstarfsins en þær standa vaktina í dag, fimmtudaginn 19. ágúst og aftur á mánudaginn 23. ágúst klukkan 12:30 – 15 en þá geta foreldrar sem hafa rætt við félagsráðgjafa komið eftir skólatöskum og fleiru fyrir börnin.

Styrkja