Allt árið um kring veitir Hjálparstarf kirkjunnar fjölskyldum sem búa við fátækt á Íslandi efnislega aðstoð. Fólkinu sem til okkar leitar býðst hins vegar einnig að taka þátt í verkefnum sem miða að því að valdefla þátttakendur og auka virkni þeirra.

Eitt slíkt verkefni nefnist Stattu með sjálfri þér – Virkni til farsældar. Um er að ræða tveggja ára verkefni fyrir konur sem búa við örorku og eru með börn á framfæri. Margar kvennanna eiga að baki áfallasögu og er markmiðið að veita þeim heildstæðan stuðning á þeirra forsendum, efla styrkleika þeirra og að þær upplifi að þær standi ekki einar.

Í maí síðastliðnum luku 14 konur þátttöku sinni í verkefninu. Þær höfðu þá um tveggja ára skeið hist á vikulegum fræðslufundum auk þess sem félagsráðgjafi Hjálparstarfsins veitti þeim ráðgjöf í einkaviðtölum og vann með þeim að úrlausn erfiðra mála.

Undir lok verkefnisins bað Hjálparstarfið konurnar um að meta áhrif þess á líðan þeirra og voru niðurstöðurnar mjög jákvæðar. Allar konurnar sögðust finna fyrir jákvæðum breytingum á líðan og getu til að takast á við dagleg verkefni. Þá fann mikill meirihluti fyrir jákvæðum breytingum á sjálfstrausti og trú á eigin getu til að takast á við foreldrahlutverkið. Aukin trú á eigin getu og virði leiðir til aukinnar virkni og eru nokkrar kvennanna þegar byrjaðar í námi eða hlutastarfi.

Nú í september síðastliðnum tók nýr hópur kvenna þátt þessu tveggja ára verkefni þar sem unnið verður á einstaklingsmiðaðan hátt í gegnum viðtöl, námskeið og hópavinnu og út frá markmiðum hverrar og einnar, áhugasviðum og styrkleikum. Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins verða þátttakendum innan handar, hjálpa þeim að setja sér markmið, koma auga á lausnir og veita stuðning við úrlausn mála.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, VIRK starfsendurhæfingarsjóður og Hjálparliðar, styrktarasamfélag Hjálparstarfsins, eru bakhjarlar verkefnisins.

Viðfangsefni Stattu með sjálfri þér – Virkni til farsældar

 • Sjálfstyrking
 • Foreldrahlutverkið
 • Tilfinningavinna
 • Heilsan okkar
 • Fjármál
 • Streita
 • Meðvirkni
 • Núvitund
 • Sjálfsumhyggja
 • Þrautseigja
 • Markmiðasetning

Hér má lesa allt um innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar.

Vilt þú styrkja hjálparstarfið? Með því að gerast Hjálparliði hjálpar þú fólki sem býr við fátækt á Íslandi og í fátækustu samfélögum heims.

Styrkja