Í desember aðstoðar Hjálparstarf kirkjunnar fólk sem býr við kröpp kjör sérstaklega svo það geti gert sér dagamun yfir hátíðirnar. Aðstoðin tekur mið af aðstæðum hvers og eins og er fyrst og fremst í formi inneignarkorta fyrir matvöru en foreldrar geta einnig valið jóla- og skógjafir fyrir börnin sín. Prestar og djáknar í dreifbýli hafa milligöngu um aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar við einstaklinga jafnt sem barnafjölskyldur en á svæðum þar sem aðrar hjálparstofnanir starfa einskorðar Hjálparstarfið aðstoðina við efnalitlar barnafjölskyldur. Gott samstarf er um jólaaðstoð víðs vegar um landið milli Hjálparstarfs kirkjunnar annars vegar og Hjálpræðishersins, Mæðrastyrksnefnda og Rauða krossins hins vegar.

Umsóknarfrestur um aðstoð fyrir jól 2021 er liðinn og félagsráðgjafar og sjálboðaliðar Hjálparstarfs kirkjunnar vinna nú úr fjölda umsókna sem borist hafa. Umsækjendur hafa þegar komið eftir fatnaði og jóla- og skógjöfum fyrir börnin. Inneignarkort í matvöruverslunum verða afhent á tímabilinu 16. – 20. desember næstkomandi. Umsækjendur fá upplýsingar með skilaboðum í símanúmer sitt (sms) um það hvenær þeir skuli sækja inneignarkortin. Vegna smitvarna er afar mikilvægt að koma á þeim tíma sem gefinn er upp í skilaboðunum.    

Upplýsingar um umsóknardaga hjá samstarfsaðilum og öðrum hjálparsamtökum er að finna hér: Umsóknardagar hjá samstarfsaðilum fyrir jól 2021

Hjálparstarfið tekur við umsóknum um efnislega aðstoð á ný frá og með 12. janúar 2022.

Á myndinni eru Rannveig Sigurðardóttir, Mjöll Þórarinsdóttir, Anna Barkardóttir, Dúfa S. Einarsdóttir, Bergþóra Njálsdóttir, Sigrún Benedikts Jónsdóttir og Sólveig Árnadóttir sem hafa í mörg ár gefið vinnu sína við að flokka, raða og hengja upp flíkur sem fólk hefur komið með til Hjálparstarfsins. Hjálparstarfið kann þeim og öðrum sjálfboðaliðum bestu þakkir fyrir afar dýrmætt framlag og frábæran félagsskap!

Styrkja