Hjálparstarf kirkjunnar hlaut í lok janúar 20 milljóna króna styrk frá utanríkisráðuneytinu til mannúðaraðstoðar í Amharafylki sem er nágranna fylki Tigray í norðurhluta Eþíópíu.

Í kjölfar átaka sem geisað hafa í landinu er ljóst að þörfin fyrir mannúðaraðstoð hefur sjaldan verið meiri, einkum lífsbjargandi aðgerðir sem tryggja fólki aðgang að vatni, fæðu og lífsviðurværi. Mikil eyðilegging hefur orðið á innviðum samfélagsins, skólum, heilsustofnunum og vatnskerfum. Styrkinn verður nýttur til verkefnis Hjálparstarfs Lúterska heimssambandsins sem er samstarfsaðili Hjálparstarfs kirkjunnar á vettvangi en verkefnið mun ná til um 20 þúsund íbúa. Markmiðið er að fólk sem þurft hefur að yfirgefa heimili sín vegna ófriðarins og býr við óöruggar aðstæður og líður skort á helstu nauðsynjum fái fæðu, hreint vatn og aðgang að hreinlætisaðstöðu og geti verið öruggt þar sem það er og snúið heim þegar aðstæður lagast.

Átök hafa sem kunnugt er geisað í nyrstu fylkjum Eþíópíu í rúmt ár. Að mati Sameinuðu þjóðanna hangir líf 5,5 milljóna íbúa á bláþræði vegna matarskorts. Tugþúsundir íbúa hafa flúið yfir til Súdan og átökin hafa breiðst út til fylkjanna Amhara og Afar þar sem 450 þúsund íbúar eru á hrakhólum.

 

Styrkja