Hún Rakel Jónasdóttir kíkti í heimsókn á skrifstofur Hjálparstarfsins í dag. Hún kom færandi hendi því hún gaf Hjálparstarfinu 40.000 krónur af þeim peningum sem hún fékk í fermingargjöf frá vinum og vandamönnum.

Því er ekki að neita að sá sem hér heldur á penna var forvitinn um hvernig það kom til að hún ákvað að láta svo háa upphæð af hendi rakna. Svar Rakelar var skýrt:

„Ég þarf bara ekki allan þennan pening. Það eru aðrir sem hafa meira að gera við hann en ég,“ svaraði hún.

Rakel Jónasdóttir ásamt móður sinni Inger Daníelsdóttur.

Aðspurð hvernig hún vissi af Hjálparstarfi kirkjunnar þá sagði Rakel okkur frá því að að hún hafi kynnst starfi Hjálparstarfsins í fermingarfræðslu í Lágafellskirkju. Hún vildi því að peningurinn hennar rynni til vatnsverkefna Hjálparstarfsins í Afríku en um langt árabil hafa krakkar í fermingarfræðslu fengið að heyra um þann hluta starfsins í undirbúningi fermingarinnar. Þess má geta í samhengi að sú hefð hefur skapast í fermingarfræðslunni að krakkarnir ganga í hús og safna fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfsins.

Rakel var ekki ein á ferð. Með henni voru tvær vinkonur og mamma hennar, Inger Daníelsdóttir. Hún sagði okkur að hugmyndin að gjöfinni var alfarið Rakelar.

Gjöfin kemur svo sannarlega að góðum notum.

Á verkefnasvæðum Hjálparstarfsins bitnar vatnsskortur mest á konum og stúlkum en það kemur oftast í þeirra hlut að sækja vatn og þá oft um langan veg. Verkefni Hjálparstarfsins lúta að því að vatn sé aðgengilegt. Þegar börnin þurfa ekki að fara eftir vatni um langan veg hafa þau tíma til að sækja skólann, sem annars er útilokað. Hættan á kynferðislegri misnotkun minnkar einnig þegar stúlkur þurfa ekki að fara fjarri heimilinu eftir vatni á hverjum einasta degi.

Styrkja