Skjólið – opið hús fyrir konur sem búa við heimilisleysi, opnaði dyr sínar fyrst snemma árs 2021. Síðan þá hafa konur, margar hverjar í nær vonlausri stöðu í sínu einkalífi, fundið þar vin í eyðimörkinni, þó aðeins sé það dagpart í senn.

Konurnar sem heimsækja Skjólið koma úr öllum áttum. Margar kalla Ísland heimaland sitt. Aðrar koma lengra að. Óþarfi er að greina aðstæður þeirra sérstaklega – í grunninn eru þær allar á líkum stað og þurfa aðstoð. Skjól. Flestar þeirra kvenna sem koma í Skjólið, fara aftur án þess að skilja eftir sig varanleg ummerki, nema ef væri í hugum þeirra sem tilheyra Skjólinu á einn eða annan hátt. Við hin sem erum svo lánsöm að búa við öryggi getum aldrei sett okkur í spor þeirra sem eiga hvergi höfði að halla.

Það eru því aðeins konurnar sjálfar sem geta lýst því hvaða þýðingu Skjólið hefur. Hér á eftir fer stutt  bréf sem barst til umsjónarkonu Skjólsins á dögunum. Nafn bréfritara má liggja á milli hluta en það er birt hér að neðan með fullu samþykki hennar.

Góðan dag,

Frá janúar til aprílmánaðar 2023 var ég á áfangaheimili eftir áfengismeðferð á Vogi og Vík. Ég datt því miður í það undir lok aprílmánaðar og missti þá herbergið. Við tóku mjög erfiðir mánuði í mínu lifi þar sem ég var á hálfgerðum vergangi með allt dótið mitt í bílnum mínum. Ég var í risherbergi í Hafnarfirði, innréttuðum bílskúr í Vesturbænum, í koju á hosteli og undir lokin leigði ég íbúð á Laugaveginum. Þessa sumarmánuði var ég að reyna að vera edrú en það gekk svona upp og ofan, edrúdagarnir voru þó fleiri en drykkjudagarnir.

Það sóttu oft að mér myrkar hugsanir þessa mánuði og vonarglætan var ekki mikil. Ég var komin í algjört öngstræti.

En þá frétti ég af Skjólinu – athvarfi fyrir heimilislausar konur. Ég var hálf efins þegar ég fór þangað í fyrsta skipti, vissi ekki á hverju ég átti von.

En þarna fann ég – ja, hvað skal ég segja – dásamlegan friðarstað hér í borginni. Vin í eyðimörkinni.

Þarna tóku á móti mér starfskonur sem eru hver annarri yndislegri. Aðstaðan öll er í einu orði sagt frábær, hægt að fara í sturtu, fara í tölvu, fengið þveginn þvott og borða góðan hádegismat.

Ég get eiginlega ekki lýst því hvað Skjólið er búið að gera fyrir mig, þarna öðlaðist ég von á ný og í október sl. fór ég aftur á Vog og Vík og er búin að fá aftur inni á áfangaheimili. En ég fer ennþá oft í Skjólið, sit með starfskonunum og prjóna – edrú.

Fyrir rúmri viku síðan gerðist það að ég var í Skjólinu og var búin að líða illa í nokkra daga. Þær Rósa, Hrefna og Hrönn hvöttu mig að leita til læknis en ég þrjóskaðist við, hélt að þetta myndi lagast af sjálfu sér. En þær sáu að það var eitthvað mikið að og hringdu á sjúkrabíl. Ég er þess fullviss að þær björguðu lífi mínu þennan dag. Ég var í mjög krítísku ástandi við komuna á spítalann og var þar í tvo sólarhringa þar til búið var að koma jafnvægi á bæði blóðsykur og blóðþrýsting sem var hættulega lágur við komuna á bráðamóttökuna.

Ég hef oftast verið edrú í Skjólinu en einhverja daga því miður drukkin. Ég dáist að þeirri nærgætni, þolinmæði og ástúð sem starfskonurnar sýna konunum sem koma í Skjólið í slæmu ástandi. Ég get ekki ímyndað mér hvar þessar konur væru staddar án Skjólsins, þarna er hreinlega verið að bjarga mannslífum að mínu mati.

Ég vildi bara senda þessar línur og þakka fyrir allt sem hefur verið gert fyrir mig í Skjólinu. Þessi starfsemi þarf að fá að lifa áfram.

Með einlægri þakkarkveðju,

R

Starfsfólk Hjálparstarfs kirkjunnar þakkar Hjálparliðum, sjálfboðaliðum, öðrum einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum fyrir traustið og dýrmætan stuðning við starfið á árinu. Við óskum ykkur öllum gleði- og friðarjóla og farsæls komandi árs.

 

Styrkja