Sparnaðar- og lánahópar kvenna er einn verkþáttur stærsta verkefnis Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu. Hópvinnan hefur gengið afar vel og fjölmargar konur fengið verkfæri í hendur til að byggja sér betri framtíð.
Verkefnið er unnið með sárafátækum sjálfsþurftarbændum í Sómalífylki Eþíópíu. Meginmarkmið verkefnisins eru að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni, að fólkið geti aukið fæðuöryggi sitt með skilvirkum aðferðum í landbúnaði og að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til farsældar.
Í sparnaðar- og lánahópum innan verkefnisins fá konur fræðslu um hvernig best sé farið af stað með eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hefja margar kvennanna að reka litla búð, stunda sauð- og geitafjárhald, hænsnarækt og rækta grænmeti. Konur sem taka þátt í verkefninu hafa talað um að þær hafi fjárráð og ákvörðunarvald en það var nær óþekkt að konur hefðu slíkt frelsi á verkefnasvæðunum áður.
Allt frá því að stofnað var til þessara hópa hefur starfsfólk Hjálparstarfsins fengið það ítrekað staðfest að starfið gefur afar góða raun. Jafnvel langt umfram það sem væntingar stóðu til í upphafi, má segja. Þetta fékkst staðfest í vettvangsferð Hjálparstarfsins til Eþíópíu í mars 2025. Þá hitti Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins, hóp kvenna sem eru þátttakendur í sparnaðar- og lánahópi í Gobyar, bæjarfélagi í Awbarre, nýju verkefnasvæði Hjálparstarfsins sem hófst í janúar 2025. Konurnar eru á öllum aldri og félagsleg staða þeirra ólík en upplifun þeirra af þátttöku í verkefninu var jákvæð.
Hyggst opna kaffihús
Ein þeirra, Hinda Nour Akte, er níu barna móðir. Eiginmaður hennar er bílstjóri að atvinnu og börnin á aldrinum nítján til fjögurra ára, fimm stúlkur og fjórir drengir.
Aðspurð hvernig það hefði atvikast að hún ákvað að taka þátt segist hún hafa sótt fræðslufund verkefnisstjórans. Hann hafi frætt stóran hóp kvenna um tilgang og markmið sparnaðar- og lánahópanna.
„Okkur leist strax mjög vel á og fannst mér þetta mjög spennandi. Ég var valin til að vera í einum hópnum, en það eru fimmtán konur í hverjum hóp og innan hans var ég síðan valin til að bera þá ábyrgð að vera gjaldkeri. Við erum nýbyrjaðar. Bara búnar að safna í eina viku en erum strax komnar með 7.500 birr í kassann (um 7.500 íslenskar krónur),“ segir Hinda og bendir á viðarkassa með lás sem hún ber ábyrgð á.
Hinda segir jafnframt að þegar sá tími kemur að hún á rétt til þess að taka framkvæmdalán úr söfnunarsjóðnum þá hyggist hún opna kaffihús.
„Það er engin hætta á að eiginmaður minn taki af mér peninginn. Hann styður hugmynd mína og hjálpar mér að spara. Ég vil svo taka fram að starfsfólk verkefnisins kemur mjög vel fram við okkur og ég er handviss um að við munum allar ná árangri,“ segir Hinda.

Hinda Nour Akte hefur í hyggju að opna kaffihús og eiginmaður hennar styður hana hundrað prósent.
Stórhuga kona
Sessunautur Hindu er hún Ayaan Omar. Hún á fjögur börn, þrjár stúlkur og dreng en eiginmaður hennar hefur að atvinnu af því flytja fólk og vörur á vagni í þeirra eigu. Eins og Hinda frétti hún af verkefninu og mætti á fræðslufund verkefnisstjórans.
„Við fengum líka fræðslu um að verkefnið mun þjálfa bændur í nýjum og betri aðferðum í ræktun til að fá betri afkomu. Abdu sem kynnti verkefnið fyrir okkur náði vel til okkar og vill okkur vel. Ég vil vera með af því að ég hef engar tekjur og vil gjarnan komast upp úr þessu spori og maðurinn minn vill hjálpa mér að spara. Mig langar að opna búð meðal annars sem selur grænmeti sem ég rækta sjálf,“ segir Ayaan og bætir við að ef hún fengi að ráða og hefði nóg fjármagn þá yrði ráðist í stórhuga verkefni í sveitinni.
„Ég myndi kaupa fullt af traktorum og gefa fólkinu svo allir gætu plægt akrana sína með traktorum og þannig fengið betri uppskeru.“

Ayaan Omar er stórhuga. Hún sér tækifæri í því að opna verslun og selja þar grænmeti sem hún ræktar sjálf.
Ayaan Mohamed Arab, fráskilin ung kona með eitt tveggja ára barn, tekur undir með Ayaan og bætir við.
„Eftir að hafa hlustað á fræðsluna, fékk ég mikinn áhuga á að taka þátt í verkefninu. Það er greinilega mjög vel að öllu staðið og starfsfólkið mjög áhugasamt og ég var glöð að fá að vera með. Innan hópsins var ég valin til að vera gjaldkeri,“ segir hún stolt. „Ég hef enga innkomu, fæ stuðning frá fjölskyldunni en vil verða sjálfstæð og kannski giftast aftur og eignast eiginmann og fleiri börn,“ segir hún og bætir við:
„Með stuðningi fjölskyldunnar er ég harðákveðin að safna eins og aðrir í hópnum og svo þegar kemur að mér að fá lán, langar mig að opna kaffihús, tryggja góðar tekjur sem duga til að borga lánið og síðan nota hagnaðinn í að stækka viðskiptin, kannski opna líka búð eða veita aðra þjónustu. Við í hópnum ætlum að veita hver annarri stuðning og tryggja að allt gangi vel.“
Göt sem þarf að fylla
Umalkhyr Husien, er fráskilin og án barna. Henni segist svo frá að strax hafi verkefnið vakið áhuga hennar og telur sig heppna að fá að taka þátt því það sé svo margt spennandi að gerast eftir að konurnar hófu vinnuna í hópunum.
„Ég er mjög bjartsýn á að þetta muni ganga mjög vel vegna þess að þetta getur breytt lífi okkar til frambúðar, skapað gegnumbrot í lífi okkar. Við munum fá tekjur sem við ráðum sjálfar yfir, þetta er algjörlega nýtt og breytir miklu,“ segir Umalkhyr. „Það eru alls konar verslanir og þjónusta sem vantar hér á svæðinu. Við getum bætt í þau göt. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvaða starfsemi ég ætla að setja á laggirnar en við viljum allar að nýir hópar verði myndaðir svo fleiri konur fái tækifæri. Þess vegna spörum við samviskulega og greiðum lánin til baka svo fleiri konur geti hafið starfsemi. Þegar við erum búnar að greiða til baka styðjum við nýja hópa og hvetjum aðrar konur til að taka þátt,“ segir Umalkhyr geislandi af jákvæðni.
Mun breyta lífi okkar
Hodon Smail Hassan, sem er ógift og barnlaus, ákvað að taka þátt vegna þess hvernig verkefnið var kynnt fyrir þeim. „Þeir voru ekki ekki bara að tala við okkur, heldur spurðu um okkar skoðanir og hlustuðu á það sem við höfðum fram að færa. Sýndu okkur virðingu,“ segir Hodon sem eins og Umalkhyr hefur ekki gert upp við sig hvaða starfsemi hún ætlar að byggja upp.
„Ég er ekki alveg búin að ákveða hvað ég ætla að gera, við erum rétt að byrja að spara. En ég er sannfærð um að sú starfsemi sem ég byrja með mun ganga vel og gefa mér tekjur til að breyta lífi mínu til hins betra,“ segir Hodon full sjálfstrausts. „Við vitum allar hver ábyrgð okkar er. Ég mun kynna þetta fyrir fleiri konum og það er okkar ábyrgð að þetta gangi upp; að greiða lánin til baka svo að fleiri konur fái tækifæri. Ef við stöndum okkur verða fleiri hópar myndaðir. Við erum mjög þakklátar fyrir þetta tækifæri og munum láta þetta ganga,“ segir Hodon.

Hodon Smail Hassan er sannfærð um að sparnaðar- og lánahóparnir muni breyta sínu lífi og fjölmargra annarra sveitunga hennar. Hér er hún á spjalli við Bjarna Gíslason, framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins, og Ahmed Nur sem er starfsmaður verkefnisins.
