Stjórn Frímúrarasjóðsins, menningar- og mannúðarsjóðs Frímúrarareglunnar á Íslandi, hefur veitt Hjálparstarfi kirkjunnar veglegan styrk.

Þeir Allan Vagn Magnússon, formaður, og Eiríkur Finnur Greipsson, ritari, komu við á skrifstofu Hjálparstarfsins og afhentu Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins, styrkinn fyrir hönd stjórnar en hann er að upphæð tvær og hálf milljón króna.

Frímúrarareglan á Íslandi hefur veitt starfi Hjálparstarfsins liðsinni sitt mörg undanfarin ár en á afhendingarskjali segir:

„Er það einlæg von okkar að styrkurinn komi Hjálparstarfi kirkjunnar að gagni við hið mikilvæga mannúðar- og hjálparstarf innanlands, sem unnið er á vegum kirkjunnar.“

Frímúr­ar­a­reglan á Íslandi er sjálf­stætt félag eða samtök karlmanna úr öllum hópum þjóðfé­lagsins sem hefur mannrækt að markmiði. Frímúr­ar­a­reglan á Íslandi var stofnuð þann 23. júlí árið 1951 en fyrsta frímúr­ara­stúkan var stofnuð hér á landi 6. janúar 1919; það var St. Jóh. stúkan Edda, innan Den Danske Frimurer­orden, og starfaði undir hennar vernd allt þar til formleg og sjálfstæð regla var stofnuð.

Hér má lesa allt um innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar.

Styrkja