Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn, EAPN á Íslandi (samtök gegn fátækt og félagslegri einangrun) og Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðisins hlutu nú fyrir helgina veglega styrki frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Styrkirnir verða nýttir til að draga úr félagslegri einangrun og auka virkni meðal ýmissa viðkvæmra hópa svo sem flóttamanna og hælisleitenda víða á landinu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, heimsótti skrifstofu Hjálparstarfs kirkjunnar á föstudaginn af þessu tilefni. Í færslu á samfélagsmiðlum segir Guðmundur Ingi frá heimsókn sinni.

„Það eru öflug samtök og ótalmargt gott og ósérhlífið fólk og sem ég ber ómælda virðingu fyrir sem vinnur við verkefni eins og þau sem ráðuneytið styrkti í dag. Það er mjög mikilvægt og gott að geta stutt við þessi verkefni,“ skrifar ráðherra.

Hjálpræðisherinn – Hjálparstarf kirkjunnar
Samtökin tvö hljóta styrk að upphæð tólf milljónir króna til að útvíkka virkniverkefni fyrir konur af erlendum uppruna sem hefur verið boðið upp á undanfarin ár. Verkefnið er kallað Taupokar með tilgang og er hugsað fyrir konur úr hópi innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda sem eru útsettar fyrir félagslegri einangrun.

Stefnt er að því að útvíkka verkefnið og auka fjölbreytni þess með því að bæta við verkefnum frá fyrirtækjum sem fela m.a. í sér endurnýtingu, endurvinnslu og stuðla að nýsköpun. Verkefnið miðar að því að auka virkni einstaklinga af erlendum uppruna og auðvelda þeim að aðlagast nýjum og framandi heimkynnum. Þátttakendum gefst tækifæri á að njóta samskipta við aðra í sömu stöðu. Virkniúrræðið er hugsað sem skref í áttina að vinnumarkaði en með þátttöku eykst sjálfstæði fólksins til að sækja um störf á almennum markaði.

Verkefnið er samstarfsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, sem ber jafnframt ábyrgð á verkefninu, Hjálpræðishersins og Reykjavíkurborgar sem leggur starfsmanni verkefnisins til starfsaðstöðu.

Verkefnið er liður í viðbrögðum stjórnvalda í að mæta afleiðingum heimsfaraldursins.

Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis
Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Rauði krossinn við Eyjafjörð og Hjálparstarf kirkjunnar hafa frá árinu 2012 haft samstarf um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu. Samstarfið hefur gengið einstaklega vel og fyrir jólin í fyrra var ákveðið að styrkja starfsemina enn með því að stofna formlegan samstarfsvettvang sem hlaut heitið Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis. Samtökin hófu þá samstarf á ársgrundvelli um stuðning við efnaminni fjölskyldur og einstaklinga á Eyjafjarðarsvæðinu svo söfnunarfé og framlög til málaflokksins nýttist sem best.

Velferðarsjóðurinn hlaut styrk að upphæð fjórar milljónir króna. Verkefnið sem er styrkt felst í því að bjóða upp á virkniúrræði á Eyjafjarðarsvæðinu fyrir viðkvæma hópa með það að markmiði að draga úr félagslegri einangrun. Verkefnið er unnið í samstarfi Hjálpræðishersins, Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar og Rauða krossins.

Dæmi um þau námskeið og verkefni sem styrkurinn nær til:

  • Kennsla í viðgerðum á raftækjum
  • Störf í fataverslun Hertex við fataflokkun, lagerstörf og fleira
  • Fjármálanámskeið, matreiðslunámskeið, handverksnámskeið
  • Velferðarkaffi – tungumálakaffi
  • Gönguhópur
  • Kvennahópur (sjálfstyrking og fleira)
  • Aðstoð við heimanám og íslenskukennslu

Námskeiðin verða auglýst sem hluti af starfsemi Velferðarsjóðsins en starfsmaður Hjálpræðishersins fer fyrir og stýrir verkefnunum. Hjálpræðisherinn leggur til húsnæði og starfsmann sem sér um umsýslu verkefnisins í samvinnu við samstarfsaðila. Verkefnin verða m.a. kynnt í matarúthlutun Velferðarsjóðsins sem Mæðrastyrksnefnd heldur utan um , hjá Rauða krossinum og hjá Hjálparstarfi kirkjunnar á svæðinu.

EAPN á Íslandi
EAPN á Íslandi eru regnhlífarsamtök þeirra félaga sem vinna að farsæld fyrir alla hér á landi. Samtökin eiga aðild að evrópska tengslanetinu EAPN (European Anti Poverty Network) sem voru stofnuð árið 1990. Aðildarfélögin sem standa að samtökunum hérlendis eru Félag einstæðra foreldra, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn, Kærleiksþjónusta kirkjunnar, Samhjálp, Sjálfsbjörg, Hagsmunasamtök heimilanna og Öryrkjabandalag Íslands.

Ráðherra ákvað að veita EAPN á Íslandi styrk að upphæð níu milljónir króna og er hann liður í viðbrögðum stjórnvalda í að mæta afleiðingum heimsfaraldursins. Um er að ræða tveggja ára verkefni sem felst í því að bjóða upp á virkniúrræði fyrir viðkvæma hópa með það að markmiði að draga úr félagslegri einangrun.

Dæmi um verkefni sem styrkurinn nær til:

  • Valdefling einstaklinga s.s. læra að gera við fatnað, efla tölvukunnáttu, gerð skattaskýrslu og fleira.
    Fræðsla fyrir innflytjendur um öryggismál með sérstakri áherslu á öryggismál barna.
    •  Handverksnámskeið fyrir öll kyn.
    •  Fólk af erlendum uppruna kynni sitt heimaland.
    •  Danskennsla, kennsla á hljóðfæri. Hægt að stofna blandaða hljómsveit eða kór.
    •  Samvera: Spiladagar, bingó og fleira.

Ráðinn verður starfsmaður til þess að halda utan um verkefnið og sjálfboðaliðar munu einnig koma að vinnunni.

Styrkja