„Ég finn að það gætir meiri örvæntingar hjá þeim sem sækja til okkar núna,“ sagði Vilborg Oddsdóttir,  félagsráðgjafi sem hefur umsjón með innanlandsstarfi Hjálparstarfs kirkjunnar, í síðasta tölublaði Margt smátt, fréttabréfi Hjálparstarfsins en hækkandi húsaleigu, meiri eldsneytiskostnaði og dýrari matarkörfu fylgja þungar áhyggjur hjá þeim sem minnst hafa handa á milli.

Þessa dagana eru sagðar af því fréttir að gömul kona þurfi að hrökklast frá heimili sínu og leita sér að nýju húsnæði sökum þess að leigufélagið hækkaði leiguna á íbúð hennar um tugi þúsunda. Leigan eftir endurnýjun samningsins mun hljóða upp á 325.000 krónur á mánuði frá febrúarmánuði að telja og hækkunin nemur tæpum 80.000 krónum.

Þegar rýnt er í gögn um aðstæður fólksins sem leitaði aðstoðar hjá Hjálparstarfinu á starfsárinu 2021 – 2022 kemur í ljós að rúmlega sjö af hverjum tíu bjuggu í leiguíbúð eða leiguherbergi. Helmingur þessa hóps leigði íbúð á almennum markaði, en sá hópur er mögulega stærri þar sem tólf prósent þeirra sem sóttu um aðstoð á starfsárinu gáfu ekki upp upplýsingar um húsnæðiskost sinn.

Vilborg sagði í fréttinni að ár frá ári sé fólk sífellt að glíma við sömu draugana sem oftar en ekki sé ógnarhár húsnæðiskostnaður.

...

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi

„Ef ég ætti að nefna þá hópa sem standa allra verst þá eru það einstæðu konurnar sem eru búnar að vera á örorkubótum til fjölda ára og svo eru það nýir Íslendingar, þessi stóri hópur fólks á flótta. Það er leigan sem er oftar en ekki meinið. Hún er ógnarhá og étur upp það litla sem fólk þó fær.“

Ár hvert leita fjölmargar fjölskyldur eftir stuðningi Hjálparstarfsins á aðventunni svo þær geti gert sér dagamun og glaðst saman um hátíðirnar. Nú, sem fyrr, kemur fram að hlutfall húsnæðiskostnaðar er megin ástæða þess að fólk nær ekki endum saman. Algengt er að þegar húsaleiga hefur verið greidd stendur aðeins lítill hluti greiddra launa eftir.

Vilt þú gerast Hjálparliði og styðja við fjölbreytt verkefni Hjálparstarfsins innanlands sem utan?

Hérna getið þið sem eigið eftir að kaupa jólagjafir fundið gjafir sem gefa.

Styrkja