Mikilvægur tími í starfi Hjálparstarfs kirkjunnar er hafinn en ár hvert leita fjölmargar fjölskyldur eftir stuðningi á aðventunni svo þær geti gert sér dagamun og glaðst saman um hátíðirnar

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi sem hefur umsjón með innanlandsstarfi Hjálparstarfsins, segir að aðventan sé vissulega annasamur tími.

„Jólin eru sérstök hjá okkur. Það er vegna þess að þá kemur hingað stór hópur fólks sem við sjáum bara í desember. Auglýsingaflóðið byrjar strax í nóvember um hvernig við eigum að hafa jólin okkar. Það er afar erfitt sem foreldri, sem á lítið sem ekki neitt, að standa fyrir framan börnin sín og geta ekki tekið þátt. Fólk leitar því aðstoðar um jólin til að eiga smávegis aukalega“, segir Vilborg.

Glímt við sömu draugana

Um langt árabil hefur Hjálparstarfið aðstoðað fólk sem býr við fátækt og fyrst og fremst með inneign í matvöruverslunum. Foreldrum sem búa við kröpp kjör býðst auk þess jólafatnaður og gjafir fyrir börnin, eins og undanfarin ár en stuðningurinn tekur mið af aðstæðum hvers og eins.

Alls fengu fjölskyldur um land allt inneignarkort og fleira í 1.570 skipti fyrir síðustu jól en í 1.707 skipti var sá sami stuðningur veittur fyrir jólin 2020. Um síðustu jól er því ekki óvarlegt að áætla að um fimm þúsund manns hafi notið aðstoðarinnar.

„Tilfinning mín er sú að nú fyrir jólin fjölgi aftur og ég finn að það gætir meiri örvæntingar hjá þeim sem sækja til okkar núna,“ segir Vilborg  en hækkandi húsaleigu, meiri eldsneytiskostnaði og dýrari matarkörfu fylgja þungar áhyggjur hjá þeim sem minnst hafa handa á milli.

Flestir sem leituðu til Hjálparstarfsins, eða um það bil tveir af hverjum þremur, leituðu aðstoðar í aðeins eitt skipti á starfsárinu 2021 – 2022. Athyglisvert er þó að þeim sem leituðu til Hjálparstarfsins um efnislega aðstoð fjórum sinnum eða oftar fjölgaði umtalsvert á milli ára, úr 213 fjölskyldum starfsárið 2020 – 2021 í 281 fjölskyldu starfsárið 2021 – 2022. Sú staðreynd dregur fram að aðstæður fólksins sem er í mestum fjárhags- og félagslegum vanda í íslensku samfélagi hafi versnað.

Vilborg segir að ár frá ári sé fólk að glíma við sömu draugana sem er ekki síst ógnarhár húsnæðiskostnaður.

„Ef ég ætti að nefna þá hópa sem standa allra verst þá eru það einstæðu konurnar sem eru búnar að vera á örorkubótum til fjölda ára og svo eru það nýir Íslendingar, þessi stóri hópur fólks á flótta. Það er leigan sem er oftar en ekki meinið. Hún er ógnarhá og étur upp það litla sem fólk þó fær.“

Hérna getið þið sem eigið eftir að kaupa jólagjafir fundið gjafir sem gefa.

Styrkja