Sem fyrr standa einstæðir foreldrar, örorkulífeyrisþegar og innflytjendur verst þegar kemur að fátækt á Íslandi. Fátækt barna ætti að vera sérstakt viðfangsefni enda má ætla að um 9.000 börn hafi talist undir lágtekjumörkum árið 2020.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýtti skýrslu sem ber heitið Fátækt og áætlaður samfélagslegur kostnaður og hefur verið dreift á Alþingi. Tilefni hennar er skýrslubeiðni til forsætisráðherra sem samþykkt var á þingi síðastliðið haust.

Þar kemur fram að með tilliti til fátæktar virðist staðan á Íslandi vera með því besta sem þekkist meðal samanburðarlanda sem breytir þó ekki þeirri staðreynd að fátækt er til staðar í íslensku samfélagi.

Skýrsluhöfundar áætla að heildarkostnaður samfélagsins vegna fátæktar nemi á bilinu 31-92 milljörðum króna á ári eða um 1-2,8% af vergri landsframleiðslu. Þó er tekið fram að slíkum útreikningum beri að taka með fyrirvara en þeir byggja á forsendum og þeim gögnum sem liggja fyrir.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að veita 8 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til frekari rannsókna á fátækt á Íslandi. Þannig mun hópur fræðimanna vinna með sérfræðingum Stjórnarráðsins að því að vinna úr gögnum um fátækt og skila forsætisráðherra samantekt um stöðumat og valkosti á 3-4 mánaða fresti.

Niðurstöður skýrslunnar eru í öllum aðal atriðum staðfesting á því sem starfsfólk Hjálparstarfsins upplifir í sínum störfum.  Hjálparstarfið veitir fólki sem býr við fátækt aðstoð í neyðartilfellum ásamt því að beina fólki þangað sem það getur vænst aðstoðar sem stofnunin veitir ekki beint. Hjálparstarfið leggur ríka áherslu á að tryggja velferð barna og því er sérstaklega hlúð að barnafjölskyldum. Starfið felst í því að greina vandann, veita félagslega ráðgjöf og efnislegan stuðning. Það felst einnig í valdeflingu sem leiðir til sjálfshjálpar þeirra sem starfað er með og í því að tala máli þeirra sem í nauðum eru staddir svo samfélagið taki tillit til þarfa þeirra og réttinda og að gripið verði til aðgerða sem breyta lífsmöguleikum þeirra til hins betra.

Félagsráðgjafar og notendur þjónustu Hjálparstarfsins taka þátt í fjölbreyttu samstarfi til að sporna gegn fátækt og félagslegri einangrun, stuðla að opinni umræðu og þrýsta á stjórnvöld um að takast á við fátækt á árangursríkan hátt

Hér má lesa allt um innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar.

Vilt þú styrkja hjálparstarfið? Með því að gerast Hjálparliði hjálpar þú fólki sem býr við fátækt á Íslandi og í fátækustu samfélögum heims.

Styrkja