„Þegar kemur að inngripum til að draga úr þjóðfélagslegum kostnaði fátæktar eru börn sennilega sá hópur sem inngrip skila hvað mestum árangri. Að því marki sem fátækt hefur áhrif á farsæld barna getur skipt höfuðmáli að lyfta börnum úr fátækt áður en fátæktin nær að valda þeim skaða.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýtti skýrslu sem ber heitið Fátækt og áætlaður samfélagslegur kostnaður. Tilefni hennar var skýrslubeiðni til forsætisráðherra sem samþykkt var á þingi síðastliðið haust.

Skýrsla forsætisráðherra er efnismikil en ein eftirtektarverðasta niðurstaða höfunda hennar er sú að vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem það getur haft á allt lífshlaup einstaklings að búa við fátækt í æsku að þá megi rökstyðja að fjölskyldur með ung börn ættu njóta sérstaks stuðnings frá samfélaginu.

Svo segir á blaðsíðu 30 í skýrslunni: „Að því marki sem fátækt á fyrstu árum ævinnar hefur meiri langtímaafleiðingar en fátækt síðar í æsku kann að vera ástæða til að bæta lífskjör fjölskyldna með ung börn umfram aðrar fjölskyldur.“

Þessi punktur sem settur er fram í skýrslunni snertir á grundvallarsýn Hjálparstarfsins þegar aðstoð er veitt en þá er sérstaklega horft til þess að um barnafjölskyldu sé að ræða. Þá er meginmarkmiðið að grunnþörfum fólks sé mætt, að fjárhagslegir erfiðleikar ógni ekki heilsu fólks og takmarki ekki möguleika barna og unglinga til að taka þátt í samfélaginu.

Fátækt í æsku getur haft langvarandi áhrif á einstaklinga. Þetta birtist félagsráðgjöfum Hjálparstarfsins aftur og aftur í þeirra daglegu störfum. Á sama tíma er hlutfall barna á Íslandi sem búa á heimilum undir fátæktarmörkum er 11,6%, eða um 9.400 börn, að því er kemur fram í skýrslunni og þar segir jafnframt að gera megi ráð fyrir að 5-20% af þeim börnum sem búa við fátækt í dag muni glíma við sama vanda sem fullorðnir einstaklingar, eða á bilinu 470 til 1.600 einstaklingar.

Hér má lesa allt um innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar.

Vilt þú styrkja hjálparstarfið? Með því að gerast Hjálparliði hjálpar þú fólki sem býr við fátækt á Íslandi og í fátækustu samfélögum heims.

Styrkja