Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu er með bændafjölskyldum sem búa við sárafátækt í Sómalífylki í austanverðri Eþíópíu. Einn þáttur þessa umfangsmikla verkefnis er að gefa konum á verkefnasvæðunum kost á því að taka þátt í sparnaðar- og lánahópum og fá fræðslu um það hvernig best sé að hefja eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hafa margar kvennanna hafið rekstur og reka litla búð, stunda geita- og hænsnarækt og rækta grænmeti.

Konur sem hafa tekið þátt í verkefninu tala um að þær hafi öðlast fjárráð og ákvörðunarvald. Nær óþekkt var að konur hefðu slíkt sjálfstæði áður en samvinnan hófst.

Ba’ado Muhumed Aynam er tveggja barna einstæð móðir sem fékk tækifæri til að taka þátt í verkefninu. Hún býr í Goljano hreppi í Sómalí fylki en bjó áður ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum þar stutt frá en þau skildu fyrir níu árum síðan.

„Ég kom hingað allslaus og fékk að liggja inni hjá ættingja mínum ásamt dætrum mínum. Ég fékk stuðning frá ættingjum mínum og fólkinu í þorpinu,“ segir Ba’ado sem brá á það ráð að opna litla testofu til að sjá sér og börnum sínum farborða.

Hún segir að þurrkar séu orðnir daglegt brauð og þeir valdi fæðuskorti á svæðinu. Íbúar þurfi meira og minna að reiða sig á utanaðkomandi aðstoð til að komast af.

Ba’ado og ellefu aðrar konur í Goljano voru valdar til að taka þátt í sparnaðar- og lánahópum sem Hjálparstarfið fjármagnar og heldur úti með stuðningi Lútherska heimssambandsins. Konurnar hafa fengið fræðslu um viðskipti og rekstur. Þar hafa þær dregið upp viðskiptaáætlanir fyrir lítil fyrirtæki. Í desember 2021 fékk Ba‘ado 122 evrur að láni sem hún nýtti til að byggja undir rekstur testofunnar sinnar. Fjárfesting hennar gerði henni kleift að útvíkka veitingarekstur sinn.

„Áður en ég fékk lánið gat ég aðeins selt te og mjólk, og innkoman var rýr. Nú hef ég breytt testofunni í veitingahús og sel líka mat til viðskiptavina minna,“ segir Ba‘ado. Hún slátrar geit hvern föstudag og matbýr kjötið með hrísgrjónum. Slíkur réttur kostar fimm og hálfa evru og er vinsæll meðal viðskiptavina hennar.

„Ég er búin að endurgreiða lánið að fullu og sendi svo dóttur mína í skóla,“ segir Ba‘ado sem segir að verkefnið hafi ekki aðeins breytt lífi sínu til hins betra heldur einnig allra þeirra kvenna sem skipuðu hópinn með henni og allar hafi þær öðlast tækifæri sem annars hefði ekki verið í boði.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja