Hjálparstarf kirkjunnar sendi í gær tuttugu milljónir króna til hjálparstarfs á Gasaströndinni en nú eru 100 dagar liðnir frá því að átökin hófust. Systurstofnun Hjálparstarfsins í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna – ACT Alliance – tók við framlaginu. ACT Alliance hefur starfað á svæðinu um langa hríð en fjárframlagið rennur til verkefnis sem hófst þann 1. nóvember síðastliðinn og er til tveggja ára.

Aðstoðin nær til 43.500 manns og felst hún fyrst og fremst í því að fólk í sárri neyð fær mat og hreinlætisvörur eða reiðufé til að afla sér nauðþurfta. Brýnn sálfélagslegur stuðningur er veittur börnum og fullorðnum auk þess sem viðgerðir eru gerðar á heimilum fólks, sjúkrahúsum og móttökustöð samtakanna.

Fólki sem misst hefur heimili sín er veittur leigustuðningur og því veitt öruggt skjól. Eins fær fólk aðstoð við atvinnuleit eða störf til skamms tíma. Al-Ahli sjúkrahúsið fær lyf og lækningatæki og starfsfólki þess veittur sálrænn stuðningur.

Auk þess verður fjölskyldum 500 veikra og særðra á Vesturbakkanum hjálpað með mat og húsaskjól.

Systurstofnanir Hjálparstarfs kirkjunnar í Palestínu og víðar í Mið-Austurlöndum hafa náið samráð við önnur hjálparsamtök á svæðinu og Samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum – OCHA.

Framlagið kemur frá styrktarsamfélagi Hjálparstarfsins auk 15 milljóna króna styrk frá utanríkisráðuneytinu.

Styrkja