Hjálparstarf kirkjunnar fékk í gær góða gesti þar sem Grýla og synir hennar litu við og afhentu Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins, rúmlega tveggja milljóna króna styrk. Það var Jólasveinaþjónusta Skyrgáms sem leit við og hefur nú samtals gefið rúmlega 20 milljónir króna til Hjálparstarfsins á 25 ára starfstíma sínum.

Jólasveinaþjónustan heimsækir hundruð leikskóla, fyrirtæki og einstaklinga fyrir jólin ár hvert. Þeir sveinar láta ekki nægja að skemmta börnum og fullorðnum heldur láta gott af sér leiða og hafa frá stofnun þjónustunnar árið 1997 látið 20% af veltu þjónustunnar renna til Hjálparstarfsins.

Framlaginu verður sem fyrr varið til að aðstoða fólk í neyð bæði innanlands og utan.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins, segir að framlagið ómetanlegt.  „Ég vil af öllu hjarta þakka fyrir þetta rausnarlega framlag til Hjálparstarfsins enda er þörfin alltaf fyrir hendi. Tuttugu milljónir króna, styrkur sem Hjálparstarfið hefur fengið frá Skyrgámi í gegnum árin, er meiriháttar hreyfiafl í hjálparstarfi okkar og fjölmargir hafa notið þess.“

Styrkja