Aisha Jama býr í sveitarfélaginu Deneba í  Kebribeyah héraði í Eþíópíu. Hún ein ellefu kvenna sem valdar voru til að taka þátt í verkefni Hjálparstarfsins sem meðal annars lítur að því að gefa konum tækifæri til að rækta hænsni. Um samstarfsverkefni Hjálparstarfsins og Lútherska heimssambandsins (LWF) er að ræða.

„Okkar sveit er meðal þeirra þar sem hafa orðið hvað mest fyrir þrálátum þurrkum sem hafa neytt okkur til að flytja ítrekað á önnur svæði í leit að vatni fyrir okkur og dýrin,“ segir Aisha. Hún bætir við að eftir að hafa dvalið í fimm mánuði í Jigjiga og Hartishek til að flýgja þurrkana árið 2022, hafi nokkur hópur snúið til baka til Deneba þegar Guu rigningarnar hófust um miðjan mars 2023.

„Þó að við höfum aðgang að ræktarlandi er varla mögulegt að tryggja uppskeru sem dugir til að fæða okkur fjölskylduna. Uppskeran er því notuð fyrir dýrin,“ segir hún en yfirleitt fer eiginmaður hennar til Jigjiga í leit að vinnu. Það verður ekki umflúið ef hann ætlar að framfleyta allri fjölskyldunni.

„Þegar ég var valin til að taka þátt í verkefninu og áður en ég fékk fræðslu um hvernig ég ætti að ala ungana, var ég óviss um hvernig verkefnið ætti að nýtast mér í daglegu lífi. Ég hafði aldrei séð hænsnaunga áður,“ segir Aisha og segir hana hafa litið ungana þeim augum að þetta væri bara einhver fugl sem hún vissi ekki einu sinni að væru ætir. Hún fékk fimm unga í byrjun og tveimur mánuðum seinna byrjaði hún að safna eggjum til matar fyrir fjölskylduna.

„Mér var kennt að matreiða eggin sem ég gerði með góðri olíu og lauk. Ég bar eggin fram sem morgunmat sem maðurinn minn smakkaði fyrstur því hann hafði borðað egg þegar hann var í hernum. Svo smökkuðu krakkarnir og ég eggin,“ segir Aisha sem hefur einnig selt tíu til fimmtán egg á hálfs mánaðar fresti og fengið smá skotsilfur fyrir fjölskylduna. Það hefur gert henni kleift að kaupa nauðsynjar og eldhúsáhöld sem hana vanhagaði um.

„Eiginmaður minn er húsbóndinn á heimilinu og tekur ákvarðanir fyrir okkur fjölskylduna. En ég á þennan pening sem ég fæ af eggjasölunni og má verja honum eins og mér hentar,“ segir Aisha sem er sex barna móðir. Áskoranir í lífi hennar hafa breyst því áður voru þær helstu að brauðfæða fjölskylduna en núna eru helstu vandkvæðin að fá nægt fóður fyrir hænsnin og verja þau fyrir rándýrum eins og híenum.

Aisha og tvö af börnum hennar með hænurnar sem breytt hafa lífi þeirra.

„Það verður allt í lagi með okkur,“ segir Aisha bjartsýn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja