Hjálparstarf kirkjunnar sendi í síðustu viku 16,5 milljónir króna til Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu sem aðstoðar flóttafólk frá Súdan. Framlagið er að meðtöldu rausnarlegu framlagi utanríkisráðuneytisins.

Vopnuð og hörð átök milli súdanska stjórnarhersins (SAF) og sveita uppreisnarhersins Rapid Support Forces (RSF) hafa nú varað  í Súdan í tólf vikur. Átökin eiga rætur sínar að rekja til valdabaráttu tveggja hershöfðingja sem stóðu sameiginlega að valdaráni í landinu árið 2019 þegar fyrrverandi forseta landsins var steypt af stóli en hann hafði þá setið í embætti í tæpa þrjá áratugi. Herstjórn hershöfðingjanna tveggja tók við en spenna þeirra á milli hefur farið stigvaxandi þar sem þeir hafa deilt um innleiðingu nýs stjórnarfars í landinu og aðlögun RSF sveitanna að stjórnarhernum.

Frá því átökin hófust þann 15. apríl síðastliðinn hafa um 1.100 fallið í átökunum og hátt í 12.000 hafa særst. Um 2,8 milljónir íbúa hafa neyðst til að yfirgefa heimkynni sín. Um 2,2 milljónir eru á vergangi innan Súdan en 615.000 einstaklingar hafa flúið til Mið-Afríkulýðveldisins, Chad, Egyptalands, Suður-Súdan og Eþíópíu. Allt þetta fólk er í brýnni þörf fyrir aðstoð hvort sem það hefst að hjá ættingjum innanlands eða í yfirfullum flóttamannabúðum í nágrannaríkjum.

Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna, ACT Alliance, samhæfir aðgerðir kirkjutengdra hjálparstofnana. Í júní sendu samtökin út neyðarbeiðni til aðildarsamtaka um fjármagn til hjálparstarfs í Súdan og í nágrannaríkjum, þar með talið í Eþíópíu.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur í verið í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimsambandið í Eþíópíu í áratugi. Stærsta verkefni Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu er unnið í samvinnu við samtökin í Sómalífylki en síðustu ár hefur mannúðaraðstoð einnig verið veitt vegna stríðsátaka í Tigrayfylki og vegna mikilla þurrka í Sómalí- og Órómíafylkjum.

Á næstu 12 mánuðum áætlar Lútherska heimssambandið að veita 18.000 manns aðstoð, meðal annars með matargjöfum, reiðufé og bættu aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu. Sérstaklega verður hugað að því að vernda konur og börn sem eru útsett fyrir ofbeldi sem flóttafólk.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja