Í fátækrahverfum í Kampala, höfuðborg Úganda, vinnur Hjálparstarf kirkjunnar með UYDEL (Ugandan Youth Development Link) að valdeflingarverkefni í þágu barna og ungmenna á aldrinum 13–24 ára.

Markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem eykur atvinnumöguleika þess. Einnig að unglingarnir taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þeir séu upplýstir um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.

Með fræðslu og valdeflingu má koma í veg fyrir að barnungar stúlkur verði þungaðar, hefta útbreiðslu HIV/alnæmis og kynsjúkdóma ásamt því að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. UYDEL aðstoðar unglingana sem ljúka ársnámi í smiðjum samtakanna við að komast á starfsnemasamning hjá fyrirtækjum í Kampala og í framhaldinu að fá þar vinnu.

UYDEL eru virt samtök í Úganda sem hafa áratuga reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfunum og eru leiðandi í málsvarastarfi fyrir börn og unglinga. Einn þáttur í náminu hjá UYDEL er verslunarfræði en mörg þeirra sem ekki fá starf hjá fyrirtæki eftir námið opna eigin búðarbás og selja til dæmis flíkur sem þau hafa saumað eða prjónað eða reka viðgerðarþjónustu.

Í fátækrahverfum Kampala búa unglingarnir við skelfilegar aðstæður en UYDEL leggur sérstaka áherslu á að ná til stúlkna, ungra kvenna og einstaklinga með fötlun, en ár hvert útskrifast fleiri en 500 ungmenni úr þremur smiðjum samtakanna.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja