Yusuf Ibrahim Abdulaziz er fimmtugur Súdani, fæddur og uppalinn í höfuðborginni Khartoum. Þrátt fyrir fötlun sína hefur hann alltaf getað unnið fyrir sér og lifað sjálfstæðu lífi þrátt fyrir erfiðleika. Eða allt til þess dags sem borgarastyrjöldin braust út um miðjan apríl síðastliðinn.

Vopnuð og hörð átök milli súdanska stjórnarhersins (SAF) og sveita uppreisnarhersins Rapid Support Forces (RSF) hafa nú varað  í Súdan í þrjá mánuði. Átökin eiga rætur sínar að rekja til valdabaráttu tveggja hershöfðingja sem stóðu sameiginlega að valdaráni í landinu árið 2019 þegar fyrrverandi forseta landsins var steypt af stóli en hann hafði þá setið í embætti í tæpa þrjá áratugi. Herstjórn hershöfðingjanna tveggja tók við en spenna þeirra á milli hafði farið stigvaxandi þar sem þeir hafa deilt um innleiðingu nýs stjórnarfars í landinu og aðlögun RSF sveitanna að stjórnarhernum.

Erfitt að fela sársaukann

Frá því átökin hófust þann 15. apríl síðastliðinn hafa þúsundir manna fallið eða særst. Um þrjár milljónir íbúa hafa neyðst til að yfirgefa heimkynni sín. Um 2,2 milljónir eru á vergangi innan Súdan en 615.000 manns hafa flúið til Mið-Afríkulýðveldisins, Chad, Egyptalands, Suður-Súdan og Eþíópíu. Allt þetta fólk er í brýnni þörf fyrir aðstoð hvort sem það hefst við hjá ættingjum innanlands eða í yfirfullum flóttamannabúðum í nágrannaríkjum.

Yusuf Ibrahim Abdulaziz er einn úr þessum hópi.

Yusuf Ibrahim Abdulaziz er fimmtugur Súdani, fæddur og uppalinn í höfuðborginni Khartoum.

„Stríðið hefur gert það sem fötlun mín gerði aldrei. Ég er ósjálfbjarga. Ég get ekki til þess hugsað lengur að þurfa að sitja og bíða eftir því að einhver mér ókunnugur færi mér mat og aðrar nauðsynjar,“ segir Yusuf sem hefur um langt árabil unnið við reiðhjólaviðgerðir í heimaborg sinni. Hann segir stoltur frá því að margur sem gengur heill til skógar hafi lægri laun en hann hefur haft á hjólreiðaverkstæðinu, sérstaklega í ljósi þess að hann sé sjálfmenntaður.

Yusuf segir frá brosandi, en getur þó illa falið þann sársauka sem fylgir því áfalli sem hann hefur orðið fyrir í kjölfar borgarastyrjaldarinnar. Hann flúði frá Khartoum þann 18. júní – réttum tveimur mánuðum eftir að skærurnar brutust út. Það tók hann fimm daga að komast til landamærabæjarins Metema þar sem hann óskaði eftir hæli í Eþíópíu. Að öllu óbreyttu tæki þetta ferðalag aðeins einn dag en í stríðshrjáðu landi breytast öll formerki á stuttu ferðalagi.

Aftur og aftur var för hans og samferðamanna stöðvuð af hermönnum beggja fylkinga. Fólk var myrt á flótta og hermennirnir hirða iðulega allar eigur fólks. Margir þurfa að múta hermönnunum til að geta haldið för sinni áfram, sem er þó engin trygging fyrir því að langt sé komist. Vegir til nágrannaríkja Súdan eru varðaðir af hermönnum sem notfæra sér neyð flóttamanna. Þegar allt er uppurið – lausafé og aðrar eigur – er för fólks stöðvuð og þeim snúið til baka þar sem frekari hörmungar bíða þeirra. Flóttinn er fyrir þá sterku – hinir hæfustu komast af.

Fötlun Yusuf er honum engin vörn gegn níðingshætti hermannanna. Allar eigur hans voru hirtar og hálfgróin sár í andliti hans og á höndum fara ekki framhjá neinum. Þrátt fyrir allt liggur þyngst á Yusuf að hafa engar fréttir fengið af systkinum sínum og öðrum ættingjum sem ennþá þreyja þorrann í Khartoum þar sem átökin eru einna hörðust.

Grátt ofan á svart

Yusuf dvaldi í fjóra daga við landamæri Súdan og Eþíópíu áður en hann var fluttur til Kumer flóttamannabúðanna. Búðirnar eru í Amhara fylki Eþíópíu, um 70 kílómetra frá landamærunum. Yusuf, og allir aðrir sem í búðunum dvelja, er háður aðstoð með allar grunnþarfir sínar; mat, skjól, vatn, heilbrigðisþjónustu og allt annað sem öllum er nauðsynlegt. Fötlun hans bætir síðan gráu ofan á svart.

Í Kumer flóttamannabúðunum er skortur á öllu sem nafni tjáir að nefna, að því er Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) greinir frá. Búðirnar eru í raun bara samansafn flóttafólks án þess að nauðsynlegir innviðir hafi verið byggðir upp, enda fer allur tími og orka hjálparsamtaka í að sinna þeim þúsundum sem streyma frá Súdan á degi hverjum. Þetta þýðir jafnframt að illa gengur að beina fólki áfram á hentugri dvalarstaði.

18.000 hjálpað

Hjálparstarf kirkjunnar sendi í byrjun júlímánaðar 16,5 milljónir króna til Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu sem aðstoðar flóttafólk frá Súdan. Framlagið er að meðtöldu framlagi utanríkisráðuneytisins.

Á næstu 12 mánuðum áætlar Lútherska heimssambandið að veita 18.000 flóttamönnum frá Súdan aðstoð, meðal annars með matargjöfum, reiðufé og bættu aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu. Sérstaklega verður hugað að því að vernda konur og börn sem eru útsett fyrir ofbeldi sem flóttafólk.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

 

Styrkja