Bærinn Metema í Amhara fylki í Eþíópíu liggur nærri landamærum landsins við Súdan, en þaðan er aðeins um einn og hálfur kílómetri til súdanska bæjarins Gallabat, handan landamæranna. Þó lítill sé hefur bærinn leikið stórt hlutverk í ríkri sögu Eþíópíu sem er samtvinnuð sögu Súdan um aldir. Bærinn og landsvæðið þar í kring hefur verið í hringiðu átaka á milli þjóðanna tveggja og dregur hann nafn sitt af – sem er Metema Yohannes – keisaranum Yohannes IV sem féll í orustunni um Gallabat árið 1889. Þó samskipti þjóðanna sé oft saga blóðugra átaka þá er einnig um að ræða sögu verslunar, viðskipta og blómlegs mannlífs. Metema lá lengi við mikilvæga verslunarleið með tilheyrandi umsvifum en er nú aftur orðin miðstöð mannlífs, þó ástæðurnar séu dapurlegar.

Nú hverfist mannlífið í Metema um fólkið sem flýr borgarastyrjöldina í Súdan. Súdanir eru margir í þeim hópi en þangað koma einnig Eþíópar sem nú snúa heim á flótta undan stríðsvélunum – en höfðu áður flúið af sömu ástæðum þegar stríðsherrar bárust á banaspjótum í heimalandinu Eþíópíu, sem nú, þó öfugsnúið sé, þeirra eina skjól.

Samansafn flóttafólks

Borgarastyrjöldin í Súdan braust út um miðjan apríl. Síðan þá hafa tugir þúsunda flóttamanna af fjölmörgum þjóðernum farið yfir landamærin og í gegnum Metema á leið sinni. Ástæðan er sú að þar var sett á fót móttökumiðstöð fyrir þau sem flýja átökin í Súdan.

Aðeins innar í landinu, eða um 70 kílómetra frá Metema, voru Kumer flóttamannabúðirnar settar upp um miðjan júní. Þar hafast við hátt í átta þúsund flóttamenn en fjölmargir aðrir dvelja þar og bíða þess að vera vísað annað. Í Kumer flóttamannabúðunum er skortur á öllu sem nafni tjáir að nefna, að því er Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) greinir frá. Búðirnar eru í raun bara samansafn flóttafólks án þess að nauðsynlegir innviðir hafi verið byggðir upp, enda fer allur tími og orka hjálparsamtaka í að sinna þeim þúsundum sem streyma frá Súdan á degi hverjum. Þetta þýðir jafnframt að illa gengur að beina fólki áfram á hentugri dvalarstaði.

Dr. Samah ásamt móður sinni í Kumer flóttamannabúðunum í Eþíópíu.

Allslaus í tjaldi

Í Kumer flóttamannabúðunum dvelur hún Samah Kail Hussein, sem er á vergangi ásamt móður sinni. Líf hennar tók stakkaskiptum á fáeinum dögum þegar stríðið í Súdan braust út. Einn daginn var hún virtur læknir í hersjúkrahúsi í höfuðborginni Khartoum en þann næsta var hún flóttamaður í Eþíópíu – allslaus í tjaldi ásamt aldraðri móður sinni og veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér.

Samah hafði starfað á hersjúkrahúsinu í á fjórða ár. Aðeins nokkrum dögum eftir að átökin brutust út um miðjan apríl gerði hún sér ljóst að hún gæti ekki sótt vinnu sína á sjúkrahúsinu, enda versnaði ástandið í höfuðborginni dag frá degi. Hún, ásamt móður sinni sjötugri, átti sér ekki annan kost færan en að fara á milli borgarhluta til að finna sér næturstað – allt eftir því hvar hún taldi öruggast að dvelja á hverjum tíma. Bróðir hennar og tvær systur eru einnig búsettar í Khartoum sem ásamt fjölskyldum sínum leituðu skjóls þar sem það var hægt.

„Það var 7. júní sem ég áttaði mig á því að ástandið var orðið svo alvarlegt að mér væri nauðugur sá eini kostur að flýja borgina ásamt móður minni. Ég veit ekki hvernig staðan er hjá systkinum mínum og fjölskyldum þeirra sem urðu eftir í borginni,“ segir Samah en þær mæðgur tóku ekkert af veraldlegum eigum sínum með sér. Einungis föt til skiptanna og lyf fyrir móður hennar sem þjáist af sykursýki. Þær ákváðu að skilja allt eftir því þær töldu það víst að hermenn myndu hvort sem er hirða allt af þeim.

Þær voru fjóra sólarhringa að komast til landamæranna – til bæjarins Metema. Ferðin var hræðileg að sögn Samah – þær, eins og allir flóttamennirnir sem voru á sömu leið, voru skelfingu lostnar og óttuðust um líf sitt hverja mínútu. Gangan var afar erfið, ekki síst fyrir móður hennar sem er bæði gömul og veikburða. Matur var hverfandi lítil og þær báðar sársvangar allan tímann.

„Allt sem ég óska mér í augnablikinu er að móðir mín fái þá aðstoð sem hún þarf vegna veikinda sinna og að ég geti hjálpað til við að aðstoða flóttafólkið hér í búðunum,“ segir Samah en þær eru aðeins tvær af um átta þúsund manns sem dvelja í Kumer búðunum á hverjum tíma.

Ekkert til neins

Kumer búðirnar voru settar upp fyrir aðeins mánuði síðan. Lítil sem engin aðstaða hefur ennþá verið sett upp. Regntíminn stendur nú sem hæst og því er allt rennandi blautt – tjöld, fatnaður sem og allt annað. Útilokað er fyrir fólk að sinna persónulegu hreinlæti og þvottum. Sjúkdómar herja á fólk, ekki síst börn. Þungaðar konur, sjúkir og fatlaðir njóta ekki þeirrar hjálpar sem þau þurfa mjög á að halda. Hjálparsamtök reyna að forgangsraða hjálpargögnum til þeirra sem minnst mega sín en sárlega vantar upp á að nóg sé fyrir alla. Matvæli eru af skornum skammti og allir þurfa meira en er í boði. Þá er lítið sem ekkert af hreinu vatni sem verður til þess að fólkinu er nauðugur sá kostur að sækja vatn í litla á sem rennur í gegnum búðirnar. Að nýta skítugt vatnið með þessum hætti er hættulegt og því líta hjálparsamtök svo á að það sé forgangsatriði að koma upp frumstæðri vatnsveitu til að bægja frá þeirri hættu sem óhreint vatn felur í sér. Ennþá hillir ekki undir þá byltingu sem hreint vatn væri fyrir flóttafólkið þar sem nægjanlegt styrkfé hefur ekki ennþá borist til svæðisins.

Nú hafast um 8.000 flóttamenn við í Kumer flóttamannabúðunum.

Hjálparstarf kirkjunnar sendi í byrjun júlímánaðar 16,5 milljónir króna til Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu sem aðstoðar flóttafólk frá Súdan. Framlagið er að meðtöldu framlagi utanríkisráðuneytisins.

Á næstu 12 mánuðum áætlar Lútherska heimssambandið að veita 18.000 flóttamönnum frá Súdan aðstoð, meðal annars með matargjöfum, reiðufé og bættu aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu. Sérstaklega verður hugað að því að vernda konur og börn sem eru útsett fyrir ofbeldi sem flóttafólk.

Hér getur þú lesið um starf Hjálparstarfsins erlendis. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Styrkja