Julias er 19 ára gamall malavískur piltur og býr í þorpinu TA Makhwira á verkefnasvæði Hjálparstarfsins í Chikwawa héraði í Malaví. Hann er einn fjögurra systkina. Hann á tvo yngri bræður sem hann ber ábyrgð á en systir hans gekk í hjónaband fyrir nokkrum árum þegar hún var aðeins 15 ára að aldri.

Ástæða þess að hann er nú höfuð fjölskyldunnar svo ungur að árum, er sorgleg. Þau systkinin misstu báða foreldra sína þegar þau voru mjög ung. Mikil flóð riðu yfir Chikwawa-hérað árið 2019, og í þeim hamförum fórust bæði faðir þeirra og móðir. Síðan hafa þeir bræður staðið að mestu einir en hjónaband systur þeirra tengdist fráfalli foreldra þeirra beint og kom til af bráðri nauðsyn. Þau systkinin höfðu svo lítið á milli handanna að hún neyddist til að taka þessa stóru ákvörðun.

Foreldrar hans voru bændur. Þau leigðu landskika til ræktunar og þau höfðu allt sem þau þurftu; höfðu bæði í sig og á, án nokkurra vandamála. Það land sem þau höfðu rétt til að nýta í upphafi var það rýrt að uppskeran var takmörkuð en þeim tókst að tryggja sér réttinn til að rækta utan hans. Því höfðu þau úr nægu að moða og lifðu góðu lífi, að hans sögn. Eftir áfallið sem fráfall foreldra þeirra var hafa þeir bræður ekki lengur möguleika til að rækta land sér til matar.

Vill verja heimalandið

Bæði Julias og bræður hans sækja skóla. En þeir þurfa að taka alla tilfallandi vinnu þegar skóladegi lýkur – slík verk eru ekki mörg en oft þurfa þeir að vinna um helgar þegar helst er vinnu að hafa.

Spurður um hvað hann vill helst gera í framtíðinni segir Julias að hann vilji halda áfram í skóla en að hann gæti hugsað sér að verða hermaður þegar skólagöngu lýkur.

„En ég efast um að það rætist,“ segir Julias sem bætir við að ástæðan fyrir þeim draumi sé sú að hann þekkir til manna úr héraðinu sem fóru þessa leið og hlutu virðingu frá samfélaginu. Ástæðan fyrir því að hann hyggst gerast hermaður eru því ekki launin heldur vill hann taka þátt í að verja heimaland sitt og njóta þeirrar virðingar sem þeirri stöðu fylgir í Malaví.

Julias hefur ekkert velt því fyrir sér hvort það bíði hans að kynnast stúlku og stofna sína eigin fjölskyldu. Hann er sáttur í eigin skinni, eins og er. Hann telur að hjónaband sé ekki fyrir sig og hefur því engin áform um slíkt í nánustu framtíð. Enda eigi hann nóg með að leysa þær áskoranir sem blasa við honum dags daglega. Enginn tími sé til að hugsa um að stofna fjölskyldu, það sé óraunhæft eins og aðstæður þeirra bræðra eru í dag.

Ef þú vilt lesa um innlent sem erlent starf Hjálparstarfsins má finna nýja fréttabréfið hér. 

Vilt þú gerast Hjálparliði og veita verkefnum Hjálparstarfsins stuðning?

Viltu styrkja starfið?

Styrkja