Fyrir fimm árum mættu þrjár erlendar konur í húsnæði í Mjóddinni. Þær voru fyrstu konurnar sem sem tóku þátt í virkniverkefninu Tau með tilgang. Hjálparstarfi kirkjunnar höfðu verið gefnir nokkrir strangar af efni og þannig kviknaði hugmyndin að þessu umhverfisvæna verkefni, sem strax hélt af stað. Konurnar, sem sífellt fjölgaði, notuðu efnið til að sauma hverskyns fjölnota taupoka.

Fyrir ári síðan fékk verkefnið styrk frá Félags- og vinnumálaráðuneytinu til að ráða manneskju í fullt starf til að stækka og útvíkka verkefnið á marga vegu; koma með hugmyndir að nýjum hannyrðaverkefnum, sjá um ýmiskonar fræðslu og gera verkefnið Íslendingum sýnilegt. Mér hlaust sá heiður að vera ráðin í það starf. Mikið var ég heppin.

Við þetta nýja upphaf fannst okkur viðeigandi að bæta Saumó framan við nafnið Tau með tilgang. Orð sem konurnar ættu sjálfar auðvelt með að bera fram. Saumó yrði þeirra eigin saumaklúbbur og eitt skref inn í menningarheim íslenskra kynsystra sinna. En ekki frekar en hjá íslenskum konum er bara saumað í Saumó. Okkar konur læra nú íslensku af miklum móð og sumar þeirra eru að læra að skrifa í fyrsta sinn á ævinni. Einnig fá þær samfélagsfræðslu, sem snýst ekki síst um hvað er að vera kona í íslensku samfélagi og hvaða rétt þær hafa. Tvö valdeflandi skref sem færa þær nær þeim stað sem þær óska sér í samfélaginu okkar. Jafnvel á vinnumarkaðnum, þangað sem margar Saumó-konur eru nú þegar komnar og flestar stefna að.

Á leiðinni þangað er konunum okkar boðið upp á saumanámskeið og ráða nú við flóknari verkefni en einfalda poka. Þær hafa lært að hekla og búa til skartgripi. En í Saumó – tau með tilgang eru saumar ekki bara nytsamir í efnislegum skilningi, heldur líka fyrir sál og hjarta. Saumum fylgir hugleiðsluástand og ró, sem getur hjálpað við að hverfa frá þeim staðreyndum að líf mans sé beygt undir vilja eiginmannsins, að fjölskyldumeðlimir séu í hættu í stríðshrjáðu landi, að gatan bíði vegna hækkandi leigu eða að kennitalan láti sífellt á sér standa. Og stundum þarf heldur ekkert endilega að sauma, bara að hittast og spjalla, fá knús og hlæja saman, þess vegna án þess að eiga nokkurt sameiginlegt tungumál. Handapat og stöku íslenskt orð er allt sem þarf.

Já, mikið er ég heppin. Að fá að vera hluti af þessu einstaka fjölmenningarsamfélagi þar sem öllum er tekið opnum örmum – líkt og Ísland mætti vera í heild sinni.  Að fá að vera með konunum okkar þegar þær taka sín næstu gæfuskref í lífinu. Það er gott starf.

Hildur Loftsdóttir, verkefnastýra

Sjá ítarlega umfjöllun um saumaverkefnið á síðum 6-7 í nýju jólafréttabréfi Hjálparstarfsins

Styrkja