Á fundi sínum í Ástjarnarkirkju þann 3. mars sl. samþykkti fulltrúaráð Hjálparstarfs kirkjunnar einróma svohljóðandi ályktun og ákall til íslenskra stjórnvalda vegna stríðsátaka í Úkraínu:

„ Hjálparstarf kirkjunnar hefur miklar áhyggjur vegna stríðsátaka í Úkraínu og skorar á íslensk stjórnvöld að beita sér af öllum mætti í alþjóðasamfélaginu til að tafarlaust verði látið af stríðsrekstri í landinu og að stríðandi fylkingar beri virðingu fyrir alþjóðalögum og landamærum fullvalda ríkja.

Hjálparstarf kirkjunnar hvetur íslensk stjórnvöld til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stríðandi fylkingar virði Genfarsamningana og þyrmi lífi og heilsu almennra borgara á átakasvæðum og starfsfólks hjálparsamtaka sem veitir mannúðaraðstoð á vettvangi.

Hjálparstarf kirkjunnar styður heilshugar þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu svo fljótt sem verða má og taka þátt í mannúðaraðstoð á vettvangi, þar með talið að tryggja örugga flóttaleið fyrir fólkið sem hefur neyðst til að flýja heimkynni sín.

Hjálparstarf kirkjunnar tekur þátt í mannúðaraðstoð á vettvangi með því að senda fjárframlag til systurstofnana í Alþjóðlegu Hjálparstarfi kirkna – ACT Alliance sem hafa þegar hafið störf á vettvangi.

Hjálparstarf kirkjunnar skorar á íslensk stjórnvöld að stuðla að því að friðsamleg samskipti komist á milli þjóða á ný og að komið verði í veg fyrir stigmögnun átaka og að þau breiðist út til annarra landa.“

Hjálparstarfið stendur fyrir fjáröflun en fjárframlög verða send til systurstofnana Hjálparstarfsins á vettvangi sem hafa nú þegar hafið störf. Hægt er að leggja starfinu lið með eftirfarandi hætti:

  • Leggja inn á söfnunarreikning númer 0334-26-886 kennitala: 450670-0499
  • Gefa stakt framlag á vefsíðu: https://www.hjalparstarfkirkjunnar.is/
  • Hringja í söfnunarsímanúmer 907 2003 (2500 krónur)
  • Gefa framlag með Aur í númer 123-5284400
Styrkja