Larisa, Aleksei og Kristina dóttir þeirra (15 ára) eru frá Kharkiv í Norðaustur Úkraínu. Fyrir stuttu síðan lifði fjölskyldan sínu hversdagslega lífi í þessari næststærstu borg landsins sem er þekkt sem miðstöð iðnaðar og menningar. Á meðan Larisa og Aleksei sinntu þar störfum sínum hékk Kristina með vinum sínum og kettinum Bellu eftir skóla. En svo fór sprengjum að rigna yfir borgina en almennir borgarar í Kharkiv hafa orðið einna verst úti eftir innrás Rússlandshers í landið.

Óttaslegin héldu Larisa, Aleksei og Kristina sig í kjallara hússins síns í á meðan efri hæðir þess og hús nágranna þeirra voru sprengt í loft upp en eftir fjóra sólarhringa í kjallaranum fannst þeim þau ekki hafa neitt val. Þau yrðu að freista þess að komast í öruggt skjól. Þau yrðu að flýja. Og nú hafast þau við í fjöldahjálparstöð Hjálparstarfs kirkjunnar í Ungverjalandi.  „Við lifðum bara venjulegu og góðu lífi en nú erum við hér sem flóttafólk,“ segir Aleksei og lítur yfir til dóttur sinnar. Hann er lágmæltur og augnaráð hans er tómlegt. Það er bara sólarhringur liðinn frá því að þau komu í fjöldahjálparstöð ungverska Hjálparstarfs kirkjunnar í landamærabænum Berehove.

„Það vilja allir komast í burtu. Ástandið í Kharkiv er skelfilegt, algjör martröð. Það var svo margt fólk á lestarstöðinni og um borð í lestinni en einhvern veginn tókst okkar að komast með. Og nú erum við sem sagt hér sem flóttafólk í eigin landi. Við skiljum ekki að þetta sé að gerast. Þetta er bara svo hræðilegt. Þetta er martröð sem við vöknum ekki upp af,“ segir Aleksei.

Aleksei, Larisa og Kristina og fimmtía aðrar fjölskyldur sofa nú undir hlýrri sæng í fjöldahjálparstöðinni þar sem þau fá þrjár máltíðir á dag og þar sem vel er hugsað um þau. „Þótt það sé svo fjarstæðukennt að við skulum allt í einu þurfa að biðja aðra um hjálp svo við getum lifað af þá erum við rosalega þakklát fyrir að fá að vera hér og fyrir þá aðstoð sem við fáum. Hér er hlúð að okkur og allir sem vinna hérna koma fram við okkkur eins og við séum fjölskylda. Þau eru bara yndislega góð við okkur,“ segir Aleksei.

Larisa er með krabbamein og var í meðferð á sjúkrahúsinu í Kharkiv áður en Rússlandsher varpaði sprengjum á það í upphafi innrásarinnar. Nú vonar Larisa að hún komist með fjölskyldu sinni yfir landamærin til Ungverjalands og að hún geti haldið áfram í meðferð þar. „Við vitum ekki hvar við endum eða hvað við eigum að gera. Við vonum bara að friður komist á og að við getum farið aftur heim til okkar og að við getum aftur lifað okkar venjulega lífi,“ segir Larisa.

Greinina skrifaði Arne Greig Riisnæs fyrir Hjálparstarf kirkjunnar í Noregi þann 22. mars síðastliðinn. Þýðing: Kristín Ólafsdóttir.

Styrkja